139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

skuldalækkun og ábyrgð á húsnæðislánum.

834. mál
[15:23]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Með lögum sem Alþingi setti í októbermánuði 2009 um aðgerðir vegna banka- og gjaldeyrishrunsins var sett almenn lagaregla um lög um skuldastöðu einstaklinga og fyrirtækja að greiðslugetu og veðrými eigna um að lækka bæri kröfur að greiðslugetu og veðrými eigna, með öðrum orðum að virði krafna yrði núvirt eða fært niður að því sem greiðslugeta og veðrými stæði undir. Í 110%-leiðinni er horft til veðrýmisins jafnvel þótt greiðslugeta kunni að vera fyrir hendi, sem hún er í mörgum tilvikum. Þó er litið til þess að eðlilegt sé engu að síður að fjármálastofnanir beri kostnaðinn af því að færa veðbyrðina í námunda við verðmat eigna og það sé efnahagslega mikilvægt til þess að greiða fyrir markaðsviðskiptum með eignir, til þess að fá fram raunvirði og koma á samhengi milli raunvirðis krafna og eigna. Afmörkunin er alltaf við veðrýmið.

Í þeim tilvikum sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni er veðrými fyrir hendi í öðrum eignum. Bankarnir beita í grófum dráttum áþekkum aðferðum við niðurfærslu skulda í þeim tilvikum þar sem veðrýmið er annars staðar en taka þá lánsveðið undir í heildarmatið. Sama gera lífeyrissjóðir sem eru mjög fyrirferðarmiklir í veitingum lána á grundvelli lánsveða.

Ég er þeirrar skoðunar að þetta fyrirkomulag, lánveitingar með veði í íbúðarhúsnæði annarra, sé mikið ófremdarfyrirkomulag og tel mjög mikilvægt að binda enda á það. Með ábyrgðarmannalögunum sem við settum í mars 2009 eru settar miklar hömlur við því. Ábyrgðarmenn sem skrifa upp á nýjar ábyrgðarskuldbindingar eru nú varðir fyrir því að unnt sé að bera þá út úr íbúðarhúsum sínum og þarf að gera þeim grein fyrir skuldbindingunni í heild. Kröfuhafi verður að sæta því að ábyrgðin lækki til samræmis við kröfu á hendur aðalskuldara ef aðalskuldari fer í greiðsluaðlögun. Með því má í raun segja að miklar skorður hafi verið settar við veitingu nýrra sjálfskuldarábyrgða og ábyrgða á grundvelli lánsveða.

Á hinn bóginn stendur eftir sú staða að stjórnarskrárvarinn eignarréttur kröfuhafa kemur í veg fyrir að hægt sé að gera þeim að lækka kröfur á hendur skuldara sem tryggðar eru með veði í tryggum eignum. Lífeyrissjóðirnir hafa þá gjarnan talað um þau tilvik þar sem allt leikur í lyndi. Þeir nefna dæmi um vel stæða foreldra með réttindi í lífeyrissjóði sem veitt hafa veð í eigninni og aðalskuldari er kannski einkaerfingi þeirra. Þeir spyrja hver sé skynsemin í því að lífeyrissjóðirnir afskrifi þá kröfur á hendur ábyrgðarmanni við slíkar aðstæður. Ég hef viljað nefna önnur tilvik, dæmi um aldraða frænku sem skrifar upp á fyrir skyldmenni og hefur engar tekjur til að standa undir því að borga skuldina og þarf að selja ofan af sér húsnæðið ef ábyrgðin fellur á viðkomandi.

Í öllum tilvikum er þarna um að ræða stjórnarskrárvarinn eignarrétt sem Hæstiréttur hefur undirstrikað í Vestmannaeyjadómnum alræmda. Hann er stjórnarskrárvarinn og helgur. (Forseti hringir.) Það takmarkar svigrúm stjórnvalda til að mæla fyrir um að menn afskrifi kröfur sem byggðar eru á tryggingum (Forseti hringir.) í slíkum eignum.