139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

skuldalækkun og ábyrgð á húsnæðislánum.

834. mál
[15:29]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra nefndi að kröfuhöfum hefði verið gert að lækka kröfu að greiðslugetu og veðrými eigna og síðan hefði með tilkomu 110%-leiðarinnar verið litið eingöngu til veðrýmisins jafnvel þótt greiðslugeta kynni að vera til staðar. Svo gerði hann mikið úr stjórnarskrárvörðum eignarrétti þegar kom að öðrum veðum. Hvers vegna á hið sama ekki við um 110% regluna, þ.e. þegar bönkum, fjármálafyrirtækjum var gert að fara niður að veðrými eigna viðkomandi? Var þá ekki að mati hæstv. ráðherra á sama hátt verið að ganga á þennan stjórnarskrárvarða eignarrétt, sem hann kallar svo? Er þetta ekki umfram allt spurning um sanngirni?

Þó að hæstv. ráðherra telji ábyrgðarmannafyrirkomulagið mjög óheppilegt og margir hafi farið illa út úr því, var önnur leið ekki til staðar á sínum tíma. Menn áttu ekki nema lítinn hlut af verðmæti eigna til að leggja fram sem eigið fé og þurftu þá í flestum tilvikum að leita aðstoðar ábyrgðarmanna. Er ekki eðlilegt að komið sé til móts við það fólk á sama hátt og reynt er að koma til móts við þá sem tóku lán fyrir öllu saman? Væri ekki verið að senda út röng skilaboð ef eingöngu væri komið til móts við þá sem tóku lán fyrir öllu saman en ekki hina?

Nú hefur hæstv. ráðherra farið yfir það að breytingar hafi verið gerðar á ábyrgðarmannafyrirkomulaginu til að upplýsa þá betur og verja betur rétt þeirra. Er ekki í því fólgin viðurkenning á því að þetta hafi ekki verið í lagi og réttlæting fyrir því að samhliða þessum aðgerðum í tengslum við 110%-leiðina verði leitast við að rétta (Forseti hringir.) það ranglæti af?