139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

ábendingar Ríkisendurskoðunar um mannauðsstjórnun.

616. mál
[15:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þetta er mjög þörf umræða um áminningarskyldu opinberra starfsmanna og sérstaklega starfslok þeirra. Ég held og hef heyrt það reyndar hjá mörgum forstöðumönnum að áminningarskyldan geri þeim mjög erfitt um vik að stjórna stofnunum sínum þannig að eitthvert vit sé í vegna þess að það sé svo þunglamalegt og erfitt með öllum andmælarétti og öðru slíku. Það er alltaf spurning um að aðlaga þetta þeim hefðum sem eru í gangi á almennum markaði.

Svo með starfslokasamningana. Ég hef nú aldrei skilið það að borga fólki fyrir að hætta. Hins vegar geta menn átt ákveðinn rétt samkvæmt kjarasamningi en þá vil ég ekki kalla það starfslokasamning heldur uppgjör. Það er bara ósköp venjulegt uppgjör sem á sér stað ef menn hætta og eiga einhver réttindi, t.d. til sumarleyfa, uppsagnarfrests eða einhvers slíks, þá er það bara uppgjör en ekki starfslokasamningur.