139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

eitt innheimtuumdæmi.

744. mál
[15:56]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og góðan vilja en verð þó að segja að þessi skýrsla lá fyrir í september og þá höfðu menn í ráðuneytinu vitað lengi vel að hennar væri að vænta. Þess vegna spyr ég, um leið að ég þakka ráðherra svörin: Hvað er búið að gera í ráðuneytinu síðan skýrslan kom út? Hafa menn unnið eftir þessum góða vilja? Hafa menn rætt við innanríkisráðherra? Hvað hafa menn gert til að stíga þessi skref?

September fram til dagsins í dag en skýrslan er frá því í september 2010 — þetta er um það bil meðgöngutíminn sem það hefur tekið ríkisstjórnina að koma fram með tvö mjög vond frumvörp, umfangsmikil frumvörp í sjávarútvegsmálum. Ég hefði haldið að hægt væri að gera eitthvað í þessum málum sem leiðir þó ekki til jafn vondrar niðurstöðu og við erum að ræða í sjávarútvegsmálunum.

Ég held hins vegar að við verðum líka að reyna að sýna fram á að við á þinginu erum í rauninni sammála í miklu, miklu fleiri atriðum en sést út í samfélagið. Við erum ósammála um stór og mikil atriði eins og sjávarútvegsmálin en við getum sammælst um að reyna að vinna svona mál. Eins og hæstv. fjármálaráðherra benti réttilega á held ég að það hafi verið rétt og farsælt skref þegar hann sameinaði landið í eitt skattumdæmi og það var farsælt skref á sínum tíma að fara markvisst í að nýta sýslumannsembættin betur til að sinna ólíkri þjónustu ríkisins. Þar beitti þáverandi ráðherra Björn Bjarnason sér mjög og fleiri sem komu að því máli. Það er að myndast ákveðin sérhæfing í sýslumannsembættum úti á landi sem við eigum að geta nýtt með því að sameina innheimtuumdæmin og gera slíka sameiningu skilvirka og þá um leið hagfellda fyrir rekstrarniðurstöðu ríkissjóðs.