139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

eitt innheimtuumdæmi.

744. mál
[15:58]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er nú einhver ruglingur hér á ferð. Miðað við þær dagsetningar sem ég hafði og í mínum drögum að svari í ráðuneytinu stendur að athugasemdir okkar hafi komið 28. febrúar og skýrslan komið út í mars. Það er því ekki eins langur tími liðinn síðan þetta var eins og hv. fyrirspyrjandi taldi áðan. Nema eitthvað annað nýtt komi í ljós þá held ég mig við að þetta sé hið rétta í málinu. Skiptir nú ekki öllu máli. Skýrslan er sem sagt komin fram fyrir nokkru síðan og ekkert að vanbúnaði að skoða tillögurnar sem þar eru reifaðar.

Ég ætla kannski ekki að svara miklu um það sem hv. þm. Pétur Blöndal kom inn á um að meðferð þessara mála væri mjög mismunandi eftir sýslumannsembættum. Ég veit ekki hvort það var í þeim skilningi að menn væru misliprir við innheimtuna. Ég held að allir hljóti að standa með sambærilegum hætti að innheimtunni sem slíkri, þ.e. sömu gjöld eru lögð á án tillits til þess hver innheimtuaðilinn er. Það eru þá einhverjir aðrir þættir sem eru ólíkir í framkvæmdinni.

Enn síður ætla ég að blanda sjávarútvegsmálunum inn í þetta, þau varða ekki mikið innheimtu nema á auðlindagjaldinu.

Að lokum vil ég segja að einn þátt þarf alltaf að hafa í huga í þessum efnum sem er mjög tengdur því hversu mikilli hagræðingu og verkaskiptingu er hægt að ná fram, það er að rafvæða svona þjónustu almennt. Það er alveg ljóst að þeim mun meir sem þessir hlutir komast á rafrænt form, þeim mun auðveldara er að verkaskipta og fjarvinna hlutina. Það sýnir reynslan sig t.d. í skattinum sem er mjög vel búinn í þeim efnum og framtöl að yfirgnæfandi uppistöðu til eru orðin rafræn. Það skiptir þar af leiðandi ekki máli hvar þau eru send inn á vefinn og hvar úr þeim er unnið.

Fjármálaráðuneytið (Forseti hringir.) er því samhliða að gera átak í því að auka útbreiðslu rafrænna skilríkja og reyna að hraða þróun í átt til að koma ýmsu af þessu tagi meira yfir á rafrænt form sem aftur er grundvöllur þess að stokka þetta upp.