139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

hækkun skatta og gjalda.

832. mál
[16:02]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Á undanförnum tveimur árum, eða rúmlega það, hafa skattar verið hækkaðir aftur og aftur á Íslandi og menn hafa sýnt alveg ótrúlega hugkvæmni í því að finna upp nýja skatta. Þetta er óheppilegt af ýmsum ástæðum. Í fyrsta lagi er staða efnahagsmála þannig að skattheimta kemur mjög illa við bæði heimili og fyrirtæki, enda hafa skattahækkanirnar ekki skilað þeim auknu tekjum til ríkisins sem menn hafa væntanlega gert ráð fyrir þegar ákveðið var að ráðast í þær. Svigrúmið hjá heimilum og fyrirtækjum er enda svo lítið að þegar skattar eru hækkaðir ofan á allt annað er það til þess fallið að auka enn á samdráttinn og halda niðri nauðsynlegri fjárfestingu og viðskiptum sem við þurfum á að halda til að byggja upp atvinnu og efla skattstofna ríkisins.

Það eru ekki bara hækkanirnar sem slíkar sem eru óheppilegar heldur líka það hvernig ríkisstjórnin hefur nálgast þetta mál með því að viðhalda varanlegri óvissu um skattstefnuna, hækka skatta aftur og aftur. Ég hef ekki lengur tölu á því hversu oft er búið að leggja sérstaka skatta á eldsneyti af ýmsum ástæðum. Þessari óvissu er stöðugt viðhaldið og hún leiðir til þess að menn þora ekki að ráðast í neinar fjárfestingar. Erlendir aðilar sem hafa sýnt því áhuga að fjárfesta á Íslandi setja helst fyrir sig óvissuna með orkuöflun, en einnig óvissuna um hvernig skattkerfið komi til með að þróast. Hafandi séð hugmyndaflug ríkisstjórnarinnar í þeim efnum eiga menn von á nánast hverju sem er. Við þær aðstæður þora menn ekki að setja mikið fjármagn í fjárfestingu og atvinnusköpun.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Hversu oft hefur þessi ríkisstjórn hækkað skatta og önnur gjöld hins opinbera og í hverju er þær hækkanir fólgnar?