139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

flutningur skattskyldrar starfsemi úr landi.

833. mál
[16:19]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég mun örugglega gleðja hv. þingmenn enn meir með svari mínu við þessari spurningu því að vandinn er sá að upplýsingar um það sem hv. þingmaður biður um liggja ekki fyrir hjá embætti ríkisskattstjóra. Ástæðan er sú að félögum sem í hlut eiga er slitið og ástæða slitanna ekki skráð sérstaklega heldur er bara um að ræða slit á félagi sem hverfur þar með af skrá. Eins getur verið að félög sem eru áfram starfandi hér á landi stofni dótturfélög eða útibú erlendis og þá gildir það sama, hvorki er um skráningu á ástæðum slitanna að ræða né þess sérstaklega getið af hvaða ástæðum íslensk félög eða fyrirtæki kjósa að stofna dótturfélög eða útibú erlendis. Það eru ekki til sundurgreinanleg gögn sem svara þessari spurningu sem slíkri, þó að viðfangsefnið sé vissulega áhugavert.

Almennt gildir um stöðu mála á þessu herrans ári að skattumhverfi fyrirtækja hér á landi er með því hagstæðasta sem þekkist innan OECD. Það eru einfaldlega staðreyndir sem nægar vísbendingar og rök og talnagögn sýna, samanber skýrslur OECD þegar samanburðarhæf gögn eru notuð. Fyrir utan Írland, sem er með nokkra sérstöðu í þessum efnum, sérstaklega hvað varðar lágt skattþrep á tekjuskatt lögaðila, að vísu segjast þeir á móti ekki hafa neinar frádráttarheimildir, þá er það í einhverjum mæli Lúxemborg og kannski Sviss sem eru í vissum tilvikum með lægri skatta en Ísland innan OECD-fjölskyldunnar. Hvað sem hver segir er veruleiki dagsins sá að skattumhverfi fyrirtækja er hér enn með því hagstæðasta sem finnst innan OECD.

Mér heyrist reyndar hv. þingmaður vera orðinn býsna mikill frjálshyggjumaður í skattamálum þegar hann talar á þessum nótum og mærir sérstaklega hægri stjórnina í Svíþjóð — gott og vel — en Svíar eiga langt í land með að ná niður í íslensk hlutföll í þessum efnum eins og kunnugt er.

Það er alveg ljóst að Ísland þarf að vera vel samkeppnisfært í þessum efnum. Við þurfum jafnvel að reikna með því að bjóða ívið hagstæðara umhverfi að þessu leyti vegna þess að ýmislegt annað vinnur heldur á móti okkur í samkeppninni eða samanburðinum. Það er heldur ekki á dagskrá að endurvekja gamla drauma um Ísland sem eitthvert skattaskjól, einhverja skattasmugu. Það verður a.m.k. ekki meðan sá sem hér talar hefur eitthvað um þessi mál að segja. Sem betur fer hafa orðið mikil veðrabrigði í alþjóðasamfélaginu hvað varðar að vinna gegn skaðlegri skattasamkeppni og loka skattaskjólum. Nú er verið að gera mikið af samningum, upplýsingaskiptasamningum og samstarfssamningum til að ná utan um þau mál. Meira að segja Bandaríkin, sem ekki voru á þeim buxunum lengi vel, eru nú í fararbroddi þess að taka á skaðlegri skattasamkeppni eins og það er kallað, eða á skandinavísku „skadelig skattekonkurrence“ sem mikið var á dagskrá Norðurlandaráðs hér á árum áður. Það er virkilega ánægjulegt að menn sjái nú að það er engum til framdráttar að menn undirbjóði hverjir aðra því að þegar það er komið út í ógöngur hefur það mjög skaðleg áhrif, samanber þann feluleik sem þá fer í gang um að flytja hagnað milli skattasvæða og koma honum fyrir og undan skatti á aflandssvæðum. Það er þróun sem þarf að sporna gegn því að það grefur undan heilbrigðri tekjuöflun og réttlæti. Það er engin sanngirni af neinum toga í því að sum fyrirtæki og sumir einstaklingar standi skil á öllum gjöldum sínum, en séu svo í samkeppni við aðra sem gera það ekki.

Hv. þingmenn verða líka að hafa í huga að það eru sanngirnisþættir í þessum efnum í allar áttir. Það versta við óheilbrigða samkeppni á því sviði sem grefur undan eðlilegum skattskilum er ósanngirnin sem í henni er fólgin gagnvart þeim sem standa skil á öllu sínu. Miðað við núverandi stefnu tekur Ísland fullan þátt í viðleitni alþjóðasamfélagsins til að loka skattaskjólum og sækja upplýsingar milli landa þegar slíkt er á döfinni.