139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

flutningur skattskyldrar starfsemi úr landi.

833. mál
[16:29]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég hef ekki neinar tölur um það að héðan hafi orðið mikill brottflutningur fyrirtækja og allra síst af skattalegum ástæðum. Mörg fyrirtæki hafa lent í erfiðleikum og mörg hætt starfsemi og enn önnur eru í fjárhagslegri endurskipulagningu eins og gengur. Hér skráðu félög sig sérstaklega meðan við lýði var tilraun til að heimila aflandsfélögum að skrá hér starfsemi nánast skattfrjálst en þeirri tilraun lauk heldur snautlega með því m.a. að það fyrirkomulag var allt saman dæmt ólöglegt af ESA.

Sem betur fer hefur dregið verulega úr brottflutningi einstaklinga. Við erum mun nær því að ná jöfnuði nú milli mánaða þegar það er skoðað en var á hinu óhagstæða ári 2009. Það er alveg rétt að þróunin í þeim efnum var nokkuð alvarleg á árinu 2009, en sem betur fer dró verulegar úr því í fyrra og er mun minni ójöfnuður í fólksflutningum til og frá landinu núna.

Það er alveg rétt að í þessum mælingum á samkeppnishæfni skorum við ekki hátt á sviði efnahagsstjórnar. Nema hvað — skyldi geta verið að það sé vegna þess að hér varð eitt stykki allsherjarhrun? Auðvitað lækkar trúverðugleikinn við það og þeirra stjórnvalda sem stýra í landi þar sem slíkt gerðist. Að sjálfsögðu er það fyrst og fremst hrunið sem hér varð sem hefur sett okkur langt niður á þann lista. Verkefni okkar núna er að vinna okkur upp hann og við erum lögð af stað þá leið. Trúverðugleiki landsins á sviði efnahagsmála er að aukast eins og ég veit að hv. þingmaður hlýtur að gleðjast mjög yfir. Við fáum núna mun jákvæðari umsagnir, t.d. í starfsmannaskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem kom út í gær og ég hvet hv. þingmann til að lesa, í þeirri skýrslu sem mun koma frá OECD og verður gerð opinber eftir eina til tvær vikur, það vill svo til að fjármálaráðuneytið fær að sjá hana í drögum, og víðar að berst rökstuðningur og vísbendingar um að trúverðugleiki okkar sé á uppleið, sem betur fer, enda mátti hann við því eins og hann var leikinn haustið 2008.

Á Íslandi er áhættuálagið t.d. komið niður fyrir það sem það var nokkurn tímann á árinu 2008. Það er komið niður á slóðir þar sem það var í lok árs 2007, eða í um 200 punkta, án þess að það sé heilagur mælikvarði en það segir væntanlega einhverja sögu. Það er greinilegt að tiltrú manna á því að við séum að ná hér tökum á efnahagsmálunum er að aukast og ytra umhverfið er að átta sig á því að mikill árangur hefur náðst í þeim efnum. Það veit ég að gleður hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson mjög.