139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

umhverfismat á Vestfjarðavegi.

820. mál
[16:38]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Athugasemd mín snýr að því sem hæstv. innanríkisráðherra sagði áðan, að ekki væri unnið að nýju umhverfismati vegna framkvæmda á svæðinu Þorskafjörður/Skálanes eins og við erum hér að ræða. Það er nýtt fyrir mér vegna þess að á nokkrum fundum með sveitarstjórnarmönnum af sunnanverðum Vestfjörðum og Fjórðungssambandinu, plús þingmönnum Norðvesturkjördæmis, kom til mín skýlaus beiðni frá þeim um að nýtt umhverfismat yrði sett í gang, m.a. vegna nýrra laga um umhverfismat, eins og kom hér fram. Sem fyrrverandi samgönguráðherra man ég ekki betur en að ég hafi skrifað Vegagerðinni bréf þar sem ég fól henni að hefja þá vinnu á ný. Síðan getur vel verið að í því ferli leiði það til einhverrar annarrar niðurstöðu en þarna er talað um, en þetta er nýtt fyrir mér, virðulegi forseti.

Ég spyr hæstv. innanríkisráðherra: Af hverju var þetta ferli stöðvað?