139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

umhverfismat á Vestfjarðavegi.

820. mál
[16:40]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þeim sem tóku þátt í umræðunni sömuleiðis. Ástæðan fyrir því að ég lagði fram þessa fyrirspurn var sú að ég hafði, eins og hv. þm. Kristján L. Möller, staðið í þeirri trú að verið væri að vinna að nýju umhverfismati, einmitt vegna þess að komin voru ný lög um umhverfismat sem gáfu okkur mögulegar vonir um að hægt væri að komast að annarri niðurstöðu en hefur fengist eftir meðal annars þessa dómsúrskurði um vegagerð frá Þorskafirði í Skálanes. Þess vegna verð ég að játa að það kemur mér óþægilega á óvart og veldur miklum vonbrigðum að mér heyrist á þessu að nákvæmlega ekkert sé að gerast í sambandi við vegagerð á þessu svæði.

Það er gott og blessað að reyna að setja þessa deilu sem sannarlega er til staðar í sáttaferli. En í hverju felst þá sáttaferli? Hvað er verið að gera í þeim efnum? Átti að setja niður nefnd? Ef svo er, þá hefur hún ekki verið skipuð tveimur mánuðum eftir að greint var frá því að þetta mál yrði sett í sáttaferli. Sáttaferlið getur líka falist í því að hæstv. ráðherra reyni að beita sér fyrir því sem ráðherra þessa málaflokks að finna einhverja lausn í þessum efnum, en þá verður sú lausn að fara að birtast mjög fljótlega.

Það er rétt sem hæstv. ráðherra segir, auðvitað höfum við minni fjármuni núna illu heilli til vegagerðar en við höfðum áður, en fyrsta skrefið er að taka ákvörðun um það hvaða vegagerð menn ætla að ráðast í á þessu svæði eða hvort menn ætla að ráðast í einhverja vegagerð.

Það liggur fyrir að heimamenn hafna leiðunum yfir Hjallháls og Ódrjúgsháls. Þá vitum við það. Það verður aldrei sátt um það. Þá er hinn kosturinn að reyna að finna aðrar leiðir um láglendið á þessu svæði. Þessi dómur liggur fyrir. Þá þurfa menn að taka af skarið. Viljum við segja einfaldlega með lögum frá Alþingi að vegurinn skuli liggja á tilteknum stað eða viljum við freista þess að finna eitthvert annað vegstæði? Það liggur einfaldlega fyrir að landeigendur á þessu svæði eru mótfallnir því að setja niður veg (Forseti hringir.) um land sitt á þessum slóðum. Þarna er ekki um neitt annað að ræða en að það verður að taka af skarið, það verður að höggva á hnútinn. (Forseti hringir.) Ég kalla eftir því að hæstv. ráðherra geri það og kynni það í síðasta lagi í samgönguáætlun í haust.