139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

umhverfismat á Vestfjarðavegi.

820. mál
[16:42]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni, það er mjög mikilvægt að fá botn í þetta eins fljótt og hægt er en við verðum jafnframt að vanda til verka og reyna eftir því sem kostur er að ná sátt um þetta mál. Þá nálgast maður ekki viðræður með sama hætti og hv. þingmaður gerði hér. Heimamenn hafa hafnað tilteknum kostum, þar með er það út af borðinu. Það er ekkert út af borðinu. Við ætlum bara að ræða þessi mál algerlega fordómalaust og skoða í ljósi nýrrar fjárhagsstöðu og nýrra sjónarmiða sem kunna að vera uppi um hvað vænlegast sé að gera í málinu.

Við skulum gæta okkar líka á því að mála þessa mynd ekki mjög dökkum litum. Það er verið að vinna að ýmsum samgöngubótum á Vestfjörðum, sem betur fer. Við erum hins vegar að vísa til tiltekins kafla á þessum vegi, Vestfjarðavegi, sem deilur hafa staðið um og við ætlum að reyna að leysa málið. Ætlum við að gera það með lagaboði eða samkomulagi? Við ætlum að freista þess að gera það með samkomulagi. Þarna eru miklar tilfinningar og miklar skoðanir. Ég hvet til þess að við reynum að nálgast þessi mál fordómalaust og án þess að gefa okkur nokkuð fyrir fram. Ég vil að minnsta kosti reyna það.

Varðandi fyrirspurn forvera míns í embætti, hv. þm. Kristjáns Möllers, um hvort umhverfismat væri í gangi eða ekki, kannaði ég það mál í tilefni af þessari fyrirspurn. Svo er ekki. (Gripið fram í: Hefur það verið stoppað?) Ég skal grennslast fyrir um það. Ég veit ekki hvenær hv. þingmaður sendi inn þetta erindi, hvort það var á síðustu sekúndum hans í embætti eða hvað, en ekkert hefur verið gert (Forseti hringir.) til að stöðva eitt eða neitt. Málið er ekki í þessu vinnsluferli, enda hefur komið í ljós að sá sem núna gegnir þessu embætti er að leita (Forseti hringir.) annarra leiða og annarra lausna.