139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

erlendir fangar.

838. mál
[16:48]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir sitthvað sem fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hvað varðar Schengen og erfiðleika sem Schengen-aðildin skapar Íslendingum, t.d. hvað varðar einstaklinga sem hefur verið vísað úr landi. Eftir að þeir gerast brotlegir við íslensk lög er erfitt að koma í veg fyrir að þeir komi aftur til landsins einmitt vegna Schengen-aðildarinnar.

Hann spyr hversu margir erlendir fangar hafi verið vistaðir í íslenskum fangelsum í byrjun maí 2011.

Þann 1. maí 2011 voru 30 erlendir fangar í íslenskum fangelsum, þar af 11 sem ekki voru búsettir á Íslandi. Þann 13. maí 2011 voru erlendu fangarnir hins vegar 35 talsins, þar af 15 fangar sem ekki eru búsettir á Íslandi. Eins og sést á þessum tölum er fjöldi erlendra fanga mjög mismunandi eftir dögum og getur fjöldinn breyst á stuttum tíma. Rétt er að geta þess að erlendum ríkisborgurum sem dæmdir eru í óskilorðsbundið fangelsi tók að fjölga árið 2001 og fjölgaði jafnt og þétt til ársins 2008, en fjöldinn hefur verið nokkuð stöðugur frá árinu 2008.

Hann spyr einnig hversu hátt hlutfall fanga í íslenskum fangelsum hafi verið erlent í byrjun maí 2011 annars vegar og hins vegar í byrjun maí 2001.

Þann 1. maí 2011 var hlutfall erlendra fanga 19% og þann 1. maí 2001 var hlutfall erlendra fanga 8%. Sé hins vegar miðað við 13. maí 2011 er hlutfall erlendra fanga 22% og 13. maí 2001 er hlutfall erlendra fanga 10%. Með öðrum orðum hefur hlutfallið aukist verulega, en eins og ég gat um í svari við fyrri spurningunni getur skipt máli hvaða dagsetningar eru hafðar til viðmiðunar því að fjöldinn er nokkuð breytilegur.