139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

fangelsi á Hólmsheiði.

855. mál
[16:58]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Varðandi spurninguna um hver hafi útbúið útboðsgögn fyrir byggingu fangelsis á Hólmsheiði er því til að svara að vinnuhópur dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins, nú innanríkisráðuneytis, hefur undanfarið látið útbúa útboðsgögn í samvinnu við Ríkiskaup. Ríkiskaup hefur notið aðstoðar Framkvæmdasýslu ríkisins. Frumáætlun sem og kröfu- og þarfalýsing vegna fangelsisins var unnin af íslensku ráðgjafarfyrirtæki. Frumuppdrættir sem eru hluti af útboðsgögnum voru hins vegar gerðir af danskri arkitektastofu.

Þá er spurt um hve stór hlutur íslenskra arkitekta sé í þeirri vinnu sem er lokið. Fram til þessa hefur lítið reynt á vinnu arkitekta enda hefur útboð ekki farið fram. Eingöngu liggja fyrir frumuppdrættir sem dönsku arkitektarnir gerðu og er gert ráð fyrir aðkomu arkitekta, vonandi íslenskra, á síðari stigum verkefnisins.

Í þriðja lagi er spurt um stöðu málsins og hvenær ráð sé fyrir gert að fangelsið verði tekið í notkun. Því er til að svara að nú er undirbúningi því sem næst lokið. Útboðsgögn liggja fyrir og samkomulag hefur náðst við Reykjavíkurborg um að bjóða fram lóð á Hólmsheiði þar sem gert er ráð fyrir byggingu fangelsis samkvæmt deiliskipulagi. Ekki er lokið afgreiðslu á fjármögnun fangelsisins en þegar ákvarðanir um það liggja fyrir mun ráðuneytið óska eftir því að Ríkiskaup auglýsi útboð á fangelsi. Ég vona að þess verði skammt að bíða.