139. löggjafarþing — 144. fundur,  8. júní 2011.

fangelsi á Hólmsheiði.

855. mál
[17:02]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég spurðist fyrir um hve hár kostnaðurinn væri vegna dönsku arkitektanna. Mér er tjáð að hann sé tæpar 5 milljónir. Þetta er eiginlega frumhugsunin í verkinu sem þarna er sett fram af hálfu arkitektastofu sem hefur sérhæft sig nokkuð á þessu sviði, að því er mér er sagt, en hún er þar með útilokuð frá aðkomu að útboðinu vegna þess að hún stæði öðrum framar.

Ég hef spurt sérstaklega eftir því hvort megi ekki ætla að íslenskir arkitektar hafi greiðari aðkomu að þessu verkefni en erlendir því ég tek heils hugar undir með hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að mjög mikilvægt er að þau verkefni sem unnin eru á vegum opinberra aðila hafni hjá íslenskum arkitektum sem búa við mikinn verkefnaskort. Ég hef sem sagt gengið eftir þessu og legg áherslu á að þannig verði búið um hnútana. Ég held að betra sé líka fyrir verkið að byggingin sé teiknuð af mönnum sem séu öllum málum hér kunnugir. En kostnaðurinn er tæpar 5 milljónir.

Hvað varðar byggingartíma er mér sagt að ætla megi að hann sé tvö ár eða þar um bil þar til hægt verði að taka bygginguna í notkun. Ég vona að útboðið geti farið fram hið bráðasta en við eigum eftir að ganga frá því hvernig það verður gert nákvæmlega.