139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[10:38]
Horfa

Frsm. samgn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvort ég skil hv. þingmann rétt. Er hv. þingmaður að spyrja hvort það sé rétt leið að setja eignarnámsheimildir í lög eða hvort það sé rétt leið (Gripið fram í.) — í vegagerð? (ÞKG: Já.) Framkvæmd vegagerðar, já, það er kannski annað mál og ekki til umræðu í þessu nefndaráliti og þessu frumvarpi. Hér er ekki verið að fjalla um vegaframkvæmdir eða hvernig eigi að standa að þeim heldur er hér fjallað um eignarnámsheimildir til vegaframkvæmda. Það er í sjálfu sér ekki ný þróun heldur eru tugir ef ekki hundruð slíkra heimilda í lögum fyrri tíðar þannig að það er ekki verið að feta inn á neinar nýjar brautir í því, hvorki varðandi vegaframkvæmdir né aðrar framkvæmdir, að sérstakar eignarnámsheimildir séu settar í lög. Síðustu dæmi um sambærilegar framkvæmdir eru framkvæmdir við jarðgöng undir Hvalfjörð og fleira slíkt á undanförnum árum þar sem sett voru inn í lög sem gilda um slíkar framkvæmdir nákvæmlega sambærileg ákvæði og hér er lagt til að gera.

Varðandi aðra álitsgjafa en fulltrúa Vegagerðarinnar sem komu á þennan fund taldi nefndin ekki ástæðu til að kalla til frekari álitsgjafa. Það komst til tals að kalla til fundarins umboðsmann Alþingis og athuga hvaða afstöðu hann hefði til þess þegar eignarnámsheimildir væru settar inn í lög sem þegar hefðu tekið gildi. Umboðsmaður sagði að það væri utan síns verksviðs að mæta til samgöngunefndar með slíkar álitsgjafir og samgöngunefnd taldi ekki ástæðu til að kalla eftir öðrum gestum. Það komu engar uppástungur um slíkt, heldur ræddi nefndin þetta eingöngu sín á milli og komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri fyllilega í samræmi við það sem áður hefur verið gert og væri nauðsynlegt að gera í sambandi (Forseti hringir.) við breytingar á núgildandi lögum um framkvæmdir.