139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[10:40]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Eftir situr þá spurningin: Af hverju er verið að breyta lögunum fyrst þetta hefur verið gert svona fram til þessa og er algjörlega sambærilegt við það sem áður hefur verið gert? Ég var einfaldlega að inna hv. þingmann eftir því hvort hann sæi þetta í auknum mæli þannig að Vegagerðin færi í að stofna hlutafélag og færi þá þessa leið varðandi það að koma til móts við stórtækar samgönguframkvæmdir eins og Vaðlaheiðargöng eru hugsanlega, Sundabraut líka o.fl.

Mér hefur borist til eyrna að hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir og Mörður Árnason, þingmenn í samgöngunefnd, hafi verið frekar andsnúin þessu máli. Er það rétt og þá á hvaða forsendum? Hvaða röksemdir settu fram þeir þingmenn sem hafa verið frekar andsnúnir þessu máli en fylgjandi? Getur hv. þingmaður upplýst um þær umræður sem hafa átt sér stað innan samgöngunefndar? Um leið og ég þakka fyrir svarið um þá aðila sem komu á fund nefndarinnar finnst mér miður að menn hafi ekki farið víðtækara yfir það að fara þessa leið og fá álit fleira fólks. Mér þætti vænt um ef það væri hægt að greina frá umræðum innan nefndarinnar um þetta mál og hvort skiptar skoðanir hafi verið um það. Hvaða sjónarmið voru þá uppi af hálfu þeirra þingmanna sem gátu ekki fallist á þessa leið?