139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[10:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hv. þm. Björn Val Gíslason, sem er varaformaður fjárlaganefndar, hvort sú stefna að einkavæða ríkisvaldið, með því að stofna hlutafélög utan um stofnkostnað í ríkisframkvæmdum, sé stefna Vinstri grænna, að fela útgjöld ríkisins fyrir skattgreiðendum þannig að svo virðist vera sem vissar framkvæmdir — ég minni á Álftaneslaugina — detti af himnum ofan og enginn borgi þær, en að sjálfsögðu kemur það í bakið á mönnum fyrr eða síðar.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort til greina komi að gera það sama með menntakerfið. Reiknað er með að það kosti milljón kr. á ári að hafa nemanda í skóla og þá sé bara stofnað um kostnaðinn hlutafélag — hlutafélag um framhaldsskólana, hlutafélag um háskólana o.s.frv. og allar framkvæmdir og þá er bara allur kostnaðurinn farinn hjá ríkissjóði, allur stofnkostnaðurinn farinn. Er þetta stefnan? Mér sýnist nefnilega að menn séu á leiðinni út í það hér. Svo ætla menn auk þess að veita þessum hlutafélögum, í gegnum Vegagerðina, heimild til að fara í eignarnám, sem er mjög alvarlegur hlutur og kemur inn á réttindi einstaklinga o.s.frv., varðar eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Það á sem sagt að fara að veita Vegagerðinni það mikla vald og hún framselur það væntanlega eða setur það í hluta af samningum við einhver hlutafélög.

Ég dáist að dýrkun hv. þingmanns á hlutafélögum og einkavæðingu.