139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[10:45]
Horfa

Frsm. samgn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég er upp með mér af aðdáun hv. þingmanns í minn garð og þakka fyrir það.

Ég held að spurningar hv. þingmanns séu á misskilningi byggðar. Það er ekkert í lögum 97/2010 sem heimilar útgjöld ríkissjóðs til þessara framkvæmda. Það er einfaldlega þannig. Lögin heimila ekki frekari útgjöld úr ríkissjóði. Þessar framkvæmdir eiga að standa undir sér með gjaldtöku. Þeirri spurningu sem hv. þingmaður beindi til mín, hvort ég væri þeirrar skoðunar að fara ætti þá leið að fela útgjöld fyrir skattgreiðendum, svara ég því á þann veg að ég er alls ekki á þeirri skoðun, langt frá því. Enda snýst þetta lagafrumvarp ekki um það, hvorki það frumvarp sem ég hef flutt í dag, og samgöngunefnd er einhuga um að verði samþykkt, né þau lög sem það frumvarp sem við ræðum hér snýr að breytingum á, þ.e. 97/2010.

Þetta var talsvert rætt á sínum tíma þegar lögin voru samþykkt hér í fyrra af þinginu, af þingmönnum allra flokka ef ég man rétt, þverpólitísk samstaða um það. Það var talsvert rætt um það. Þá var einhugur um það hér á þinginu. Það var einhugur í samgöngunefnd á þeim tíma og fullur skilningur á málinu rétt eins og kom fram í nefndaráliti þá að framkvæmdir þessar yrðu greiddar með gjaldtöku, ekki með úthlutun ríkissjóðs. Ástæðan fyrir því er sú að ríkissjóður á ekki peninga fyrir þeim útgjöldum sem verið er að fara í. Þetta eru viðbótarframkvæmdir. Þetta eru sértækar framkvæmdir umfram útgjöld úr ríkissjóði. Það er eini möguleiki okkar til að fara í þær framkvæmdir, hvort sem þær eru norðan heiða eða sunnan, að gera það með þessum hætti. Það var undirstrikað af meiri hluta samgöngunefndar sem var allur sammála samþykkt þeirra laga sem voru samþykkt í fyrra og þann skilning sinn á málinu undirstrikuðu þingmenn allra flokka í umræðum um málið síðasta sumar.