139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[11:16]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir mjög góða ræðu þar sem hann útskýrði marga hluti sem menn hafa verið að spyrja um. Það er auðvitað ekki hægt að aðgreina þetta mál frá því stóra samhengi sem þetta mál snýst raunverulega um, þ.e. samgönguframkvæmdir og hvernig við getum ýtt þeim áfram. Þetta sérstaka mál snýr að því hvernig við getum farið af stað með framkvæmdir á Vaðlaheiði.

Hv. þingmaður hélt hér ræður á sínum tíma í tengslum við umræðuna um gjaldtöku í vegamálum varðandi Reykjanesbraut, Vesturlandsveg, Suðurlandsveg og síðan Vaðlaheiði og ég spyr hann hvaða nákvæmu skoðanir hann hafi sett fram á sínum tíma. Það er fyrsta spurning. Önnur spurning er hvort hann geti upplýst, a.m.k. mig og þá þingheim líka, hvaða sjónarmið hafi verið reifuð innan samgöngunefndar af hálfu þeirra sem höfðu ákveðnar efasemdir um þessa leið og þetta mál. Gott væri að fá það upplýst.

Skildi ég hv. þingmann rétt í því að ef þessi framkvæmd kemur ekki til með að gefa af sér þann arð og hagkvæmni sem menn gera kannski ráð fyrir í dag geri hann ráð fyrir því að ríkið muni yfirtaka restina af hlutafélaginu og það muni þá hafa í för með sér útlát fyrir ríkissjóð?

Er þetta réttur skilningur hjá mér í þessari þriðju spurningu minni til hans?