139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[11:21]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins út af sjónarmiðinu vegna skattheimtunnar skulum við setja hlutina í samhengi. Eins og ég sagði í ræðu minni áðan erum við að tala um að vera með 6 milljarða í framkvæmdir í vegamálum á hverju ári. Þær framkvæmdir sem við erum að tala um hérna, þessar tvennar framkvæmdir eða þessi tvö hlutafélög, leggja sig á upp undir 40 milljarða. Menn sjá alveg samhengið í hlutunum, það er ekki framkvæmanlegt að gera það inni í þessum hluta. Eins og ég sagði var ég mjög hugsi yfir því að setja sérstakt gjald á íbúa þessa svæðis og það var alveg fyrirséð að auðvitað kæmu mótmæli við því að þeir þyrftu að greiða fyrir það sérstaklega vegna þess að þeir fá þá eðlilega ekki afslátt af sínum öðrum gjöldum, það er ekki framkvæmanlegt.

Þá kemur líka í ljós að forustumenn sveitarfélaganna kalla til að mynda eftir tvöföldun á þessum stofnbrautum. Mér finnst við þurfa að skoða miklu betur hvort það sé nægilegt að gera þannig. Það er ekki bæði hægt að kalla eftir óraunhæfum hugmyndum og vilja svo ekki borga neitt sérstaklega fyrir þær. Við þurfum að taka þessa umræðu (Forseti hringir.) dýpri og meiri að mínu viti.