139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[11:30]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ástæða er til að stilla sig aðeins í þessari umræðu sem er ekki mjög flókin í eðli sínu. Ég vil blanda mér í hana af margvíslegum ástæðum. Fyrst er frá því að segja að afstaða manna til gjaldtöku í þessum efnum er mjög ólík frá Norðurlandi til Suðurlands. Ítrekað hefur komið fram að öll sveitarfélög í kringum væntanleg Vaðlaheiðargöng eru mjög áfram um að fara í þessa aðgerð ólíkt sveitarfélögunum sunnan heiða og almenningur fyrir norðan er líka mjög áfram um þessa framkvæmd (Forseti hringir.) sem eykur mjög umferðaröryggi.

(Forseti (ÁI): Forseti biður þingmenn að hafa hljóð í þingsal.)

Þakka þér fyrir, frú forseti. Almenningur fyrir norðan er mjög áfram um framkvæmdina þó ekki sé nema vegna öryggisástæðna.

Ég vil líka nefna þau ólíku sjónarmið sem voru á baugi í nefndinni en líflegar umræður urðu um málið. Þrennt höfðu þeir þingmenn sem hér hafa verið nefndir til sögunnar í huga.

Í fyrsta lagi hvort þessi framkvæmd tæki af öðru vegafé. Svo er ekki.

Í öðru lagi hvort hægt væri að beita eignarnámsheimildunum í þessu efni með Vegagerðinni í slagtogi við aðra aðila. Það er hægt og fjöldi fordæma er fyrir því, ekki bara á vegum heldur líka við eignarnám vegna vatnsbóla, ofanflóðahættu o.s.frv.

Í þriðja lagi hvort hér væri verið að grípa inn í eftir á, breyta reglum eftir að ferlið væri hafið. Eins og viðkomandi þingmaður þekkir er fjöldi fordæma fyrir því þegar eignarnám er annars vegar og ljóst að Vegagerðin hefur samkvæmt vegalögum heimild til þess að gera þetta.