139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[11:35]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa umræðu. Eignarnámsheimildirnar eru mjög víðtækar þegar kemur að almannahagsmunum. Ég vænti þess að ég deili þeirri skoðun með hv. þm. Ásbirni Óttarssyni að almannahagsmunir eru í húfi varðandi þessa framkvæmd. Hér er verið að tala um væntanlegan þjóðveg 1 og þarna er verið að taka burtu mikinn slysakafla á hringveginum sem er út með Eyjafirði og yfir Víkurskarðið sem teppist mjög oft yfir vetrarmánuðina, dagparta og heilu dagana.

Einnig er frá því að segja, frú forseti, að þessi framkvæmd er að meiri hluta í opinberri eigu. Vegagerðin á þetta félag að meiri hluta og því er þetta í sjálfu sér opinber framkvæmd. Þó svo væri ekki og þetta væri fullkomin einkaframkvæmd þá gætu sveitarfélögin í krafti almannahagsmuna líka farið fram með eignarnámsheimild gagnvart þeim aðilum sem eiga land hvorum megin við munnana. Við erum því að (Forseti hringir.) tala um almannahagsmuni, þess vegna geta opinberir aðilar, hvort heldur eru sveitarfélögin eða Vegagerðin, (Forseti hringir.) beitt eignarnámsheimildum (Forseti hringir.) ef á þarf að halda.