139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[11:36]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri mér grein fyrir því að við fjöllum hér um almannahagsmuni. Það sem ég sagði áðan er að þetta er að mínu viti klárt inngrip eftir að ferillinn hefst. Löggjafarvaldið er að grípa inn í ferilinn, um það er ekki deilt. (Gripið fram í.) Hvort æskilegt sé að gera þetta svona hef ég ekki nægilega lögfræðilega þekkingu á og hvort það muni hafa einhverjar afleiðingar í för með sér ef menn draga í efa hvort þessi heimild liggi fyrir vegna þess að viðræður eru þegar hafnar milli aðila og hlutafélagsins.

Við megum ekki gleyma því að málið sprettur upp úr því að við erum að fara í ákveðna framkvæmd sem hlutafélag heldur utan um. Það sér um framkvæmdina, það sér um að reka mannvirkið og innheimta gjöldin. Þess vegna kemur þessi áleitna spurning upp. Það gefur augaleið að tilgangur þessara laga er einmitt að eyða þeirri óvissu hvort heimild sé til framlengja sjálfkrafa til hlutafélagsins þá eignarnámsheimild sem Vegagerðin hefur og engar deilur eru um.