139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[11:37]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Það mál sem hér liggur fyrir er í sjálfu sér tiltölulega einfalt í orðum en flókið í gjörð. Hér liggur fyrir að óskað er eftir eignarnámsheimild til nýstofnaðs hlutafélags um gerð Vaðlaheiðarganga. Í rauninni mætti hafa þau orð uppi að málið væri þannig vaxið að það bæri bara að klára það sem fyrst og þar með væri ræðu minni lokið. Svo er því miður ekki því nauðsynlegt er, ekki síst út frá umræðunni sem hér hefur átt sér stað, að hafa um þetta allnokkur orð og ekki síður vegna þess að í 1. umr. um þetta verkefni, Vaðlaheiðargöng, var það liður í að ná samkomulagi um ræður þingflokka og þingmanna að ég fór ekki inn á mælendaskrá og hef ekki gert fyrr um Vaðlaheiðargöng, svo furðulegt sem það er nú þegar haft er í huga að sá sem hér stendur er kannski einn upphafsmaður að þessu máli. Aðdraganda þess að verkefnið er komið í þann farveg sem liggur fyrir má rekja til ársins 1998 þegar bæjarstjórn Akureyrar hóf vinnu við að greina styrkleika og veikleika sveitarfélagsins. Atvinnumálanefnd á þeim tíma fór til verka í samráði við aðila vinnumarkaðarins á Akureyri og ein af tillögunum sem þar komu upp og var síðan borin áfram af bæjarstjórn Akureyrar það ár var sú að bæjarstjórnin ætti að beita sér fyrir því að gerð Vaðlaheiðarganga hæfist og það verkefni yrði svo fljótt sem auðið væri að veruleika.

Frá þeim tíma hefur málið verið borið uppi af sveitarfélögum á Norðausturlandi og raunar einkaaðilum líka á síðari stigum. Þó vil ég geta þess sérstaklega að það var gert og hefur alla tíð verið gert í tengslum við hugmyndir og áform um uppbyggingu á öðrum sviðum, sérstaklega þó atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslum, ég tala nú ekki um á Bakka við Húsavík. Forsendur fyrir slíku kunna að vera eitthvað breyttar en þetta verkefni er þó þannig vaxið, ég held ég fari rétt með, að á kjörtímabilinu 2003–2007 meðan Sturla Böðvarsson var samgönguráðherra, voru komin í samgönguáætlun áform um að hefja undirbúning að gerð Vaðlaheiðarganga. Þá höfðu liðið u.þ.b. 5 ár frá því hugmyndin kom fram og þar til þeim áfanga var náð að verkið var nefnt í samgönguáætlun Alþingis.

Í upphafi vil ég geta þess að frá fyrsta degi hefur alla tíð verið rætt um að verkið yrði borið uppi af gjaldtöku. Áherslur sveitarstjórna fyrir norðan á sínum tíma, árið 2000, sem báru þetta verkefni fram, voru þær að ríkið kæmi að hluta til að verkinu með sambærilegum hætti og við Hvalfjarðargöngin en að öðru leyti yrði kostnaðurinn borinn uppi af veggjöldum. Það er því ekkert nýtt að ræða þetta út frá þeirri hlið.

Hugmyndin eins og henni er stillt upp núna er að stofnað verði um þetta hlutafélag þar sem ríkissjóður er í meirihlutaeigu og þessu er kippt út fyrir efnahag ríkissjóðs á þann hátt að félaginu er veitt heimild til lántöku. Ég skal undirstrika það að ég hef alla tíð haft ákveðinn fyrirvara á þeim verkefnum sem þannig er farið með á vegum ríkisins. Nægir í því sambandi að nefna umræðu um byggingu Landspítala – háskólasjúkrahúss, tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpu, vegaframkvæmdir o.s.frv., og svo maður nefni nú nýjasta dæmið sem virðist vera í einhverjum habít á milli hæstv. fjármálaráðherra og innanríkisráðherra sem lýtur að áformum um byggingu fangelsis. Þar skilst mér að ágreiningurinn milli stjórnarflokkanna liggi í því að Vinstri grænir vilji fara með verkefnið í svokallaða einkaframkvæmd meðan Samfylkingin vill fjármagna það af ríkisfé eins og eðlilegt er. (Gripið fram í.)

Bygging Vaðlaheiðarganga sker sig að þessu leytinu til frá þessum verkum að forsendan fyrir þeim er að þau verði borin uppi af veggjöldum. Þá hafa menn sett þann fyrirvara að ef allt um þrýtur og illa gengur þá falli þær skuldbindingar sem félaginu er heimilað að gangast undir á ríkissjóð. Það er vissulega rétt. En í því sambandi minni ég á að nákvæmlega sama staða var uppi varðandi Hvalfjarðargöngin og ekki síður öll umræðan og hrakspárnar sem fylgdu því verki þegar það var í undirbúningi. Muna menn t.d. eftir skrifum sumra fjölmiðla og leiðarahöfunda, sem eru mjög aktívir á blogginu í dag, þar sem þeir spáðu því að mjög illa færi fyrir þeirri framkvæmd? Virtir verkfræðingar lýstu því yfir að þeir mundu aldrei fara um þessi göng því þau hryndu o.s.frv. Þannig hefur oft verið með stórframkvæmdir sem ráðist er í að enginn skortur eða hörgull er á andmælendum þeirra.

Ég er sannfærður um að Vaðlaheiðargöngin eiga eftir að reynast vel. Verkefnið mun ganga vel. Það mun leiða til eflingar atvinnustarfsemi og aukinna möguleika fyrir fólk og fyrirtæki á svæðinu. Alla tíð hafa samgöngubætur sem miða að því að stytta vegalengdir og draga úr kostnaði leitt til einhvers konar margfeldisáhrifa og ég er sannfærður um að Vaðlaheiðargöngin munu með sama hætti gera það gagn sem þeim er ætlað að hafa.

Í þessu sambandi er líka nauðsynlegt að nefna tengslin við Norðfjarðargöng því þau hafa komið fram í fyrri ræðu. Það liggur fyrir að þingmannahópur Norðausturkjördæmis hefur í vinnu sinni, þegar rætt um samgöngumál, sett það verkefni á oddinn. Eftir stendur að reyna að finna því fjármögnun. Í umræðunni bæði á hinu háa Alþingi og ekki síður úti í kjördæminu hefur borið á þeim misskilningi að eitthvert val sé um hvort farið verði í Vaðlaheiðargöng eða Norðfjarðargöng. Slíkt val er ekki fyrir hendi. Norðfjarðargöngin verða fjármögnuð af ríkisfé. Vaðlaheiðargöngin eru unnin með allt öðrum hætti eins og hér hefur verið lýst, bæði í ræðu minni og þeim ræðum sem áður hafa verið fluttar. Það er allt annað verkefni og ekkert val er um að fá fjármunina sem ætlaðir eru inn í lántökuheimild til hlutafélagsins til að leggja í Norðfjarðargöng. Það er bara þannig. Menn verða að vinna fjárlögin þannig að hægt sé að afla ríkisfjár til þeirra verkefna sem kallað er á.

Það er hins vegar fyrirkvíðanlegt að framlög til samgönguverkefna hafa verið skorin mjög grimmt niður. Í rauninni má segja og fullyrða með nokkrum rétti að bróðurpartur þess niðurskurðar sem þó hefur átt sér stað í ríkisrekstrinum eða ríkisfjárlögum liggi í því að skorið hefur verið niður í vegaframkvæmdum og samgönguframkvæmdum, svo furðulegt sem það nú er. Menn hafa lagt það upp þannig að verið sé að standast þau markmið sem sett hafa verið í áætlunum um að ná heildarjöfnuði í ríkisfjármálum á árunum 2009–2013. Nær væri að menn einbeittu sér að því sem var kannski eitt af undirmarkmiðum stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þar sem ætlast var til að íslensk stjórnvöld stuðluðu að hagvexti í landinu sem mundi þá draga úr atvinnuleysi, auka kaupgetu fólks o.s.frv. Nær væri nær að ríkisstjórnin hefði einbeitt sér að því að uppfylla þau markmið í stað þess að ganga fram í ríkisrekstrinum eins og raun ber vitni.

Ég vil nefna þetta hér sérstaklega, einfaldlega vegna þess að ég hef töluverðar áhyggjur af því að samgöngumannvirki þjóðarinnar muni líða fyrir þær lágu eða litlu fjárveitingar sem til þeirra er varið um þessar mundir. Ég held að við séum að veikja innviði samfélagsins með því háttalagi sem hæstv. ríkisstjórn hefur stundað í þessum efnum. Tekjumöguleikar, tekjuauki án skattlagningar, þ.e. í gegnum vöxt atvinnulífsins, er það sem við þurfum og að því þurfum við að einbeita okkur.

Það eru vissulega önnur verkefni sem hér liggja undir. Af því ég sé að hv. þm. Kristján L. Möller fylgist áhugasamur í salnum með þessari umræðu vil ég nefna það að grundvallarstefið í umræðunni um samgönguframkvæmdir á að vera stytting vegalengda sem dregur úr heildarkostnaði fyrir þjóðfélagið en eykur möguleika okkur á því að bæta við tekjugrunninn. Enginn skortur er á verkefnum í þessa veru. Vissulega er hægt að grípa til ákveðinna aðgerða á höfuðborgarsvæðinu, þó ekki væri nema til að draga úr biðtíma fólks eða eldsneytiskostnaði, en í mínum huga þarf á því að halda við alla umræðu að sýna fram á ábata samfélagsins af þeim verkum sem við er að glíma.

Í tilfelli Vaðlaheiðarganganna er um að ræða styttingu og einnig samdrátt í eldsneytisnotkun og tímasparnað. Ég sé því ekkert annað en góðar forsendur fyrir því að fyllilega réttlætanlegt sé að ráðast til þessa verkefnis. Það eina sem vantar hins vegar upp á í mínum huga til að fullkomna myndina eru þau áform sem uppi hafa verið í langan tíma fyrir norðan að nýta sem best þá fjárfestingu sem hér er verið að leggja í. Það gerum við einfaldlega með því að nýta þær auðlindir sem búa í jörðu fyrir norðan, þ.e. orkuna, og nota hana til þess að búa til ný atvinnutækifæri þannig að umferðin um göngin verði sem best og réttlætingin á þeim liggi fyrir.

Ég vil líka geta þess sérstaklega, af því að hv. þm. Björn Valur Gíslason gengur hér að og tyllir sér á spjall við hæstv. og virðulegan forseta, og bið hann að taka eftir þeim orðum sem ég segi nú út af umræðunni um þetta. Það er ekkert og skal ekki vera vafamál að Sjálfstæðisflokkurinn, þingflokkur hans, styður þetta verkefni þrátt fyrir þá fyrirvara sem menn hafa sett við það. Það höfum við gert og við erum ekki að bakka út úr því. Við teljum að frumvarpið sem hv. þingmaður ber fram sé liður í því að koma verkinu til enda en fyrirvararnir sem við einstakir þingmenn höfum sett fram í ræðum okkar eru fullgildir og ber að taka fullkomlega alvarlega. Við erum ekki að bakka út frá þessu verki. Það vil ég undirstrika hér og tel að nauðsynlegt sé að það komi fram. Við styðjum verkefnið og höfum staðið heil að baki því.

Vissulega er rétt sem komið hefur fram og ber að ítreka, að forsendur eru breyttar frá því að menn lögðu þetta upp. Hv. þm. Björn Valur Gíslason hefur reynt að skýra það og gengið þokkalega vel en ég skal alveg segja þá skoðun mína hér að oft hefði mátt gera það með öðrum og betri hætti en raun ber vitni. Vissulega er óþarfa hortittur í verkinu sjálfu að þurfa að bera fram þetta frumvarp. Auðvitað hefði þessi heimild átt að vera í upphaflega frumvarpinu. Hún á sér fullt af fordæmum en bara það að þurfa að bera þetta fram svona varpar fremur leiðinlegu ljósi á málið. Því miður.

Ég vil nefna það líka sérstaklega, í ljósi þess að nú gengur hv. þm. Kristján Möller inn í salinn að nýju, að ævintýralega skemmtilegt hefur verið að fylgjast með því hvernig þetta mál hefur þróast á umliðnum árum, allt frá árinu 1998 frá því að hugmyndin kom fyrst fram. Viðbrögð stjórnmálaafla við henni voru mjög misjöfn. Töluvert bar á andstöðu við hana í upphafi meðal margra stjórnmálamanna og sennilega flestra stjórnmálaflokka en í áranna rás og eftir því sem tíminn hefur liðið hafa alltaf fleiri og fleiri séð kostina við að fara þessa leið. Þar á meðal vil ég nefna hv. þm. Kristján L. Möller sem hefur með ýmsum hætti reynt að eigna sér þetta mál og ég vona að hann njóti þess alveg út í ystu æsar.

Þetta hefur oft á tíðum orðið kosningamál í Norðausturkjördæmi fyrir alþingiskosningar og sem betur fer hefur stuðningur við verkefnið vaxið. En best af öllu er þó að skilningurinn á gildi framkvæmdarinnar hefur aukist til muna. Það er sá skilningur sem hefur þjappað Norðlendingum, Austfirðingum og raunar fleiri landsmönnum saman um verkefnið. Árásir hafa komið fram gegn þingmönnum Norðausturkjördæmis og þá sérstaklega þeim einstaklingum sem gegnt hafa starfi samgönguráðherra og gegna, þar á meðal hv. þm. Kristján L. Möller, og þeir setið undir ámæli um að vera dæmigerðir kjördæmapotarar. Það er á margan hátt mjög ómakleg umræða, einfaldlega vegna þess að þetta verkefni, eins og svo mörg önnur sem unnin eru í öðrum kjördæmum en þessu, eru ekki endilega borin uppi af þingmönnum viðkomandi kjördæma með það í huga að hagsmunir kjördæmis þeirra séu ofar öllu. Allt er þetta liður í því að styrkja búsetu í landinu öllu svo að allir hafi sömu möguleika til að leggja sitt af mörkum til farsældar í þessu ágæta þjóðfélagi okkar. Með þeim orðum ætla ég að ljúka máli mínu, forseti, og vænti þess að málið eigi skjóta og örugga leið í gegnum þingið.