139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[12:01]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Já, ég held að á margan hátt megi segja að ríkisstjórnin þjáist af ákveðnum verkkvíða. Ég ber vissulega ákveðinn ugg í brjósti vegna þessa.

Ég vil nefna það sérstaklega vegna þess að hér uppi eru nemendur í háskóla unga fólksins og ég vonast til þess að einhver þeirra eigi eftir að taka þátt í störfum Alþingis þegar fram líða stundir og leggja sitt af mörkum til að greiða fyrir því að samgöngur um landið geti orðið sem greiðastar. Ég veit til þess að einhver þeirra hafa greitt úr eigin vasa, jafnvel af fermingarpeningunum sínum, til að komast í þennan skóla. Það eitt segir okkur hversu mikið á okkur er leggjandi til þess að bæta samgöngur á landi þannig að kostnaður allra í þjóðfélaginu verði sem minnstur til þess að komast á milli tveggja staða í landinu. Ég vænti þess að þetta ágæta unga fólk sem er framtíð okkar og við byggjum á taki þátt í störfum sem tengjast íslenskum stjórnmálum og læri af þeirri reynslu sem er miðlað innan veggja Alþingis.

Eitt af því sem ég vil leggja til og tengja við fyrirspurn hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur áðan er að hvetja það ágæta unga fólk sem hefur lagt á sig að komast til þessarar fræðslu til að vera ekki og bera ekki sama verkkvíða í brjósti eins og oft vill einkenna stjórnmálamenn sem standa frammi fyrir stórum verkum. Það eina sem menn geta haft í farteskinu er að trúa og treysta á getu sjálfs síns og annarra til góðra verka og þannig hefur íslenskri þjóð reitt best af í gegnum aldirnar.