139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[12:23]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þarf kannski ekki að fara í langt andsvar við hv. þingmann sem hefur verið að reifa samgöngumálin sem oft verða upphaf að mikilli umræðu. Tvö atriði vil ég setja fram vegna þess að þau gætu orðið til að skýra þetta mál og eiga þá um leið að verða til að stytta umræðuna og auðvelda mönnum að gera upp hug sinn. Frumvarpið sjálft, sem ég flutti á sínum tíma sem samgönguráðherra, naut víðtæks stuðnings, enginn var á móti en einhverjir sátu hjá.

Það kom fram hér áðan, og ekki bara hjá hv. þingmanni sem talaði síðast, að sú eignarnámsheimild sem verið er að setja inn með þessu frumvarpi á við bæði félögin, bæði félag sem stofnað verður utan um hugsanlegar framkvæmdir hér á suðvesturhorninu, ef farið verður í þær, samkvæmt 1. gr. laganna, og eins varðandi 2. gr. laganna, þ.e. að Vegagerðinni sé heimilt að taka þátt í stofnun hlutafélags með félögum sem hún fer með eignarleg eða stjórnunarleg yfirráð yfir. Lögfræðingar telja að þessi eignarnámsheimild þurfi að vera í lögum vegna þess að sennilega mun þurfa að beita eignarnámi. Sú aðferð er alltaf númer tvö, við viljum alltaf ná samningi ef þarf að fá land undir veg eða jarðgöng eins og hér.

Hitt atriðið sem er veigamikið, og ég kem betur að því í seinna andsvari mínu, sem svar við spurningu hv. þingmanns, er að verkefnið er sjálfbært og reiknað út frá núverandi umferðarmagni; 90% af því umferðarmagni eru talin fara í gegnum göngin, 10% fram hjá. Þarna er ekki gert ráð fyrir aukningu sem verður vegna framkvæmda á norðausturhorninu, það verður allt plús inn í þetta reiknilíkan.

Virðulegi forseti. Ég kem kannski að því í seinna andsvari að að mínu mati eru ekki lengur deilur um veggjaldið fyrir norðan eftir ágætan fund sem þetta félag átti með FÍB ekki alls fyrir löngu.