139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[12:28]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er mikilvægt að heyra. Mér finnst gott að hv. þm. Kristján Möller hefur komið hingað upp til að skýra málið betur. Það er mikilvægt að vinna svona mál í sátt og samvinnu við hagsmunasamtök eins og FÍB, sem eru gæslumenn fyrir bifreiðaeigendur hér á landi og fyrir okkur sem notum vegina. Ég er því fegin að menn eru að ná einhverjum samtóni í þessu máli.

Ef þetta er sjálfbært verkefni, ef menn þurfa ekki að borga neitt úr ríkissjóði í þessa framkvæmd og eru reiðubúnir að fara þessa leið, þá segi ég: Förum af stað. Ég er sammála því. Við eigum að drífa okkur í þessar framkvæmdir. En þetta mál býður upp á umræðu um það hvað er að gerast í samgöngumálum annars staðar á landinu, það bara gerir það.

Ég er því fegin að hæstv. innanríkisráðherra er kominn hingað til að ræða þau mál frekar en undirstrika það að við verðum að fara af stað í þær framkvæmdir sem við getum farið af stað í. Það er þjóðfélaginu öllu til heilla, hvar sem er á landinu.