139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[12:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir talaði nokkuð mikið um framkvæmdir, taldi nauðsynlegt að örva þær og þar með fjárfestingu, og ég er alveg sammála því. En mér fannst hv. þingmaður horfa of mikið á opinberar framkvæmdir. Nú er það þannig að það vantar fé í ríkissjóð, það er öllum kunnugt og allir vilja ná stöðu ríkissjóðs niður.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort ekki væri rétt að horfa á einkaframkvæmdir, þ.e. hvað einstaklingar og fyrirtæki þeirra gætu fjárfest í atvinnulífinu og af hverju ekki ætti að reyna að örva slíkar framkvæmdir sem yrðu þá ekki á kostnað ríkisins, mundu ekki kosta neinar ábyrgðir eða slíkt og gætu orðið um allt land. Hvernig ætlar hv. þingmaður að örva það? Hvernig á til dæmis þeim 60 þúsund fjölskyldum sem töpuðu hlutabréfum að detta í hug að fjárfesta aftur í hlutabréfum? Það hefur engu verið breytt. Það er alveg hægt að stela og hola fyrirtækin að innan eins og hingað til. Það hefur engu verið breytt í þeim efnum. Hvers vegna ættu menn að vera svo vitlausir að henda aftur peningum í hlutabréf? Af hverju ættu erlendir aðilar að fjárfesta á Íslandi þegar stöðugt er verið að gefa merki um það til útlanda að hér verði einkavætt, lagðir á skattar eftir á og skattar hækkaðir og allt slíkt. Hvernig sér hv. þingmaður möguleikann á að einstaklingar fjárfesti eða sér hann bara að ríkið fjárfesti með sínum takmörkuðu fjármunum?