139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[12:35]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru réttmætar ábendingar hjá hv. þingmanni varðandi hlutafélagaformið í tengslum við þessar stórvirku framkvæmdir, þ.e. óttinn við þær. Þó að ríkisvaldið setji ekki neitt fjármagn í þetta hlutafélag — Vegagerðin er með 51% eignarhlut og síðan ætla menn að fjármagna þetta með lántökum sem verður síðan greitt af með því veggjaldi sem verður innheimt — þá eru það eðlilegar og réttmætar ábendingar og efasemdir sem koma fram hjá hv. þingmanni hvað þetta varðar. En ég hef þá trú að ef menn hafa farið markvisst yfir það með þeim hagsmunasamtökum sem hlut eiga að máli, með þinginu og þeim sérfræðingum sem við getum kallað til, og komist að þeirri niðurstöðu að hægt sé að fara þessa leið án þess að það kalli á útgjöld úr ríkissjóði þá eigum við að skoða það. Við eigum að skoða allar þær leiðir sem ýta framkvæmdastiginu af stað aftur. Við verðum að gera það. Við getum alltaf fjallað um það hvaða samgönguframkvæmdir eru (Forseti hringir.) arðbærar og hverjar eru nauðsynlegar og hverjar ekki. En ég held að þetta mál sé þess eðlis og þannig unnið að réttlætanlegt sé að fara í það.