139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[12:38]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Um leið og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa komið hingað í þingið er ég ekki endilega viss um að þetta liðki allt til fyrir umræðunni. Ég mun áfram óska eftir því að vera á ræðulistanum hér á eftir.

Galin umræða. Já, ég er sammála því að hún er galin að því leyti hvernig menn nálguðust suðvesturhornið, mér fannst það galin umræða. Það er ekki hægt að segja að það sama gildi um Vaðlaheiðargöngin og um suðvesturhornið af því aðstæður eru aðrar fyrir norðan en hér fyrir sunnan; eina útgönguleið okkar sem búum á suðvesturhorninu er einmitt þessi.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, hann er búinn að svara einni spurningu: Hefur sá hópur sem átti að hittast í tengslum við kjarasamninga varðandi samgönguframkvæmdir hist? Hæstv. ráðherra segir að það sé farið af stað með framkvæmdir. Gott og vel. Mínar heimildir eru þær að menn séu ekki komnir nándar nærri eins langt og hægt hefði verið. Það getur vel verið að eitthvað sé að fara af stað og það er vel, en menn vilja einfaldlega fleiri framkvæmdir og að menn nýti það svigrúm sem til staðar er innan fjárlaga.

Ég vil síðan ræða sérstaklega þann fund sem ég sat með sveitarstjórnarmönnum og fleirum af suðvesturhorninu, sem hæstv. ráðherra boðaði menn á til að vera í samráði. Það er vel, ég fagna því. En hvað líður því að menn fái ákveðnar lausnir? Þeir sveitarstjórnarmenn sem komu að austan, frá Hveragerði, frá Selfossi, og fleiri bentu á að menn þurfi ekki að bíða eftir því hvort 2+2 eða 2+1 leiðin verði farin, menn geti farið af stað með ýmsar úrbætur nú þegar á Suðurlandsveginum. Af hverju er ekki farið af stað í það? Við vitum að þá var þegar farið af stað með ákveðna tvöföldun. Við erum að ræða um fleiri þætti og fleiri úrbætur á þeim vegi sem mér fannst sveitarstjórnarfólkið rökstyðja mjög vel að hægt væri að fara í.