139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[12:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum nefndarálit frá hv. samgöngunefnd um stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir, sem snýst aðallega um eignarnámsheimildir.

Fyrst langar mig að spyrja hæstv. forseta hvernig matarhléi verður hagað. Ég sé að flutningsmaður málsins formaður samgöngunefndar er ekki viðstaddur umræðuna. Ég hygg að hann sé í mat. Það er spurning hvort hægt sé að halda slíkri umræðu áfram þegar menn bregða sér í mat og hlýða ekki á umræðuna?

(Forseti (ÁI): Forseti vill geta þess að hv. formaður samgöngunefndar er í húsinu og á þess vegna kost á að hlýða á umræðuna.)

Jú, umræðan fer sem sagt fram í matsalnum líka. Þá vil ég byrja á því að tala um …

(Forseti (ÁI): Hv. þingmaður hlýtur að gera sér grein fyrir því að í matsal er einnig hægt að fylgjast með umræðum í þingsal.)

Já, ég gat þess.

Ég hef margoft sagt það í gegnum tíðina að vegaframkvæmdir séu fyrir allt landið. Ég skil ekki þetta hagsmunapot og kjördæmapot og landsbyggðarpot og allt það. Ég nota jarðgöngin úti á landi og held að ég hafi notað þau öll, frú forseti. Og ég veit ekki betur en landsbyggðarfólkið bregði sér í bæinn. Það vill svo til að ríkisvaldið er statt í Reykjavík og þá þurfa landsbyggðarmenn að koma til Reykjavíkur. Ég veit ekki betur en þeir noti þá vegaframkvæmdir okkar Reykvíkinga, bæði sem ríkið fjármagnar og Reykjavíkurborg. Ég vil að menn hefji sig upp úr þeim hjólförum að tala alltaf um landsbyggð og kjördæmi o.s.frv. Þetta er sameiginlegt verkefni okkar og við eigum að finna út úr því hvað er skynsamlegt að gera á hverjum stað.

Eitt af því fyrsta sem við horfum til í sambandi við vegaframkvæmdir er öryggið. Öryggið skiptir verulegu máli. Það er peningalegur kostnaður af slysum, svo að maður tali nú ekki um dauðsföll, og þau eru líka heilmikið persónulegt tap sem við verðum að koma í veg fyrir.

Félag íslenskra bifreiðaeigenda hefur nokkuð fjallað um þessi mál. Ég ætla ekki að lengja umræðuna með því að vísa til eða lesa upp úr þeirra fréttum en þeir virðast óttast veggjöldin mjög mikið, að bifreiðaeigendur verði látnir borga veggjöld til viðbótar við þá skatta sem þeir borga í gegnum bifreiðagjöld, tolla og vörugjöld á bíla og síðan bensíngjöld og olíugjöld og alls konar gjöld sem lögð eru á umferð og hafa hækkað mikið og umtalsvert í tíð núverandi ríkisstjórnar. Menn óttast að til viðbótar komi skattlagning sem ekki hefur verið hér hingað til. FÍB bendir líka á að þær áætlanir að 90% muni keyra í gegnum göngin geti verið varasamar, sérstaklega á sumrin þegar fallegt er að keyra Víkurskarðið og horfa fyrir Eyjafjörð, fyrir utan að veggjaldið er ansi hátt og ósköp lítið sparast, ég held að það séu níu mínútur sem sparast á því að keyra göngin. Þau verða myrk og dimm og ekkert voða skemmtileg þegar maður er í skemmtiferð. Ég hugsa að mjög margir velji að keyra Víkurskarðið, ég mun alla vega gera það. Áætlanir gætu að einhverju leyti verið rangar og þá getur verið að forsendur fyrir framkvæmdunum standist ekki.

Rætt var í hv. efnahags- og skattanefnd mjög ítarlega fyrir mörgum árum, þegar breyting var gerð á skattlagningu olíugjalds og bensíngjalds, að taka upp kerfi sem mér skilst að Evrópusambandið ætli að taka upp innan ekki langs tíma, sem byggir á GPS og SMS-skilaboðum þar sem verður mæld notkun bíla á hverjum stað. Það breytir náttúrlega mjög miklu í svona framkvæmdum, t.d. innheimtu gjaldanna sem kostar umtalsvert. Mér skilst að í Hvalfjarðargöngunum kosti 40–50 milljónir á ári að innheimta gjöldin. Það fellur niður vegna þess að þessi tækni mælir sjálfkrafa þegar menn fara í gegnum göngin. Það getur vel verið að framkvæmdir sem eru ekki arðbærar við núverandi stöðu verði arðbærar þegar slíkt kerfi er komið. Menn þurfa að skoða það líka í þessu samhengi. Ég hef ekki heyrt neinn koma inn á það í þessari umræðu.

Ég nefndi áður og legg mikla áherslu á að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og ríkisstjórnin eru sameiginlega að reyna að ná niður halla á ríkissjóði. Af hverju, frú forseti? Af hverju má ekki hafa bara halla á ríkissjóði og miklar skuldir og annað slíkt? Það er vegna þess að eftir því sem hallinn vex þá vex vaxtabyrði ríkissjóðs bæði innan lands og erlendis. Það kemur að þeim punkti í skuldasöfnun, eins og sum heimili hafa því miður kynnst, að menn ná ekki að borga niður vextina og skuldirnar aukast vegna þess að alltaf þarf að bæta vöxtum við höfuðstólinn og menn lenda í vítahring. Það verður með öllum ráðum að hindra það, jafnvel með mjög sársaukafullum niðurskurði, jafnvel með mjög sársaukafullri skattlagningu, sem ríkisstjórnin hefur farið í, eða með því að stækka kökuna eins og hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa ekki þreyst á að benda á. Í staðinn fyrir að flæma fólk til útlanda, sem er því miður gert í stórum stíl og ég held að sé eiginlega það hræðilegasta sem er að gerast núna, er hægt að stækka kökuna og skapa atvinnutækifæri fyrir þetta fólk með öllum mögulegum ráðum. Þess vegna nefndi ég einkafjárfestingar og hlutabréf og annað áðan. Þetta er nokkuð sem þarf að gera. Mér finnst að ríkisstjórnin sé í vaxandi mæli að plata skattgreiðendur. Það er jafnvel talað um að háskólasjúkrahúsið eigi að fara í einhvers konar hlutafélag þannig að það komi hvergi fram, það detti ofan af himnum og verði bara þarna og menn noti það og borgi svo leigu og síðan verði það vandamál framtíðarfjármálaráðherra hvernig það verði borgað. Þetta er að sjálfsögðu skuldbinding.

Ég vil líta á allar framkvæmdir þannig að ef fjármálaráðherra næstu ríkisstjórnar eða næsta árs vill hætta að borga viðkomandi gjöld, hvort sem það er leiga af Keflavíkurvelli eða hvað það nú er, þá megi hann gera það án þess að þurfa að borga skaðabætur. Ef það er dæmið er þetta allt í lagi. En mér sýnist einmitt með Vaðlaheiðargöng að svo sé ekki. Menn geta ekki hætt allt í einu við og sagt: Nú verða engin gjöld á þessu. Löggjafinn kemur ekkert að málinu. Við viljum hafa frelsi til að leggja á þá skatta sem okkur dettur í hug án þess að taka tillit til þessarar framkvæmdar — en þá gengur hún ekki upp. Menn munu ekki borga 1.000 kr. inn í þessi göng ef þeir geta í staðinn keyrt þá 16 km sem sparast.

Mér sýnist að verið sé að plata skattgreiðendur framtíðarinnar, börnin okkar og fleiri, og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem ég hef svo sem ekkert voðalega mikla samúð með en það er ljótt að plata fólk. Þetta er víðar. Ég benti áðan á að við gætum þess vegna sett allt menntakerfið í hlutafélag og tekið svo skuggagjöld af nemendum framtíðarinnar. Þá hyrfi það bara út úr ríkisreikningnum og þar sæjust engar framkvæmdir og ekki neitt, voða gaman. Þetta gengur náttúrlega ekki upp. Ég skil ekkert í því að menn skuli leyfa sér að tala svona.

Við erum að tala um eignarnámsheimildir. Eignarnámsheimildir Vegagerðarinnar, sem hún hefur samkvæmt lögum, á hún að geta framselt með samningi eða gert það fyrir hlutafélög sem hún hefur samið um. Þetta finnst mér vera mjög alvarlegt því að í 72. gr. stjórnarskrárinnar — ég les alltaf stjórnarskrána öðru hverju, frú forseti, mér til hugarhægðar til að halda í eitthvað — stendur, með leyfi forseta:

„Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.“

Það er einmitt það sem er verið að gera, það er verið að segja að það sé almenningsþörf. Það er það fyrsta sem þarf að liggja fyrir. Er almenningsþörf á þessum göngum? Í öðru lagi þarf að koma fullt verð. Það höfum við rætt í umræðunni, að menn eru byrjaðir að semja við landeigendur og þá eru allt í einu sett lög á Alþingi um að eignarnámsheimildum skuli beitt í gegnum hlutafélög. Mér finnst það mjög varasamt.

Það sem mér finnst líka varasamt við þetta allt saman, þar sem hæstv. innanríkisráðherra gengur hérna fram hjá pontunni, er öll sú einkavæðing ríkisins sem felst í þessu frumvarpi. Gaman væri ef hæstv. ráðherra hlustaði á það af því að hann hefur ekki verið beint hrifinn af einkavæðingu hingað til. Kannski er hann ekkert hrifinn af þessu frumvarpi. Kannski greiðir hann atkvæði gegn því aftur eða situr hjá.

Þetta var um eignarréttinn og einkaheimildina. Þá er spurning um það sem framsögumaður málsins og meira að segja sá sem flutti það upphaflega gat um í umræðunni til að byrja með, hv. þm. Björn Valur Gíslason, að við værum í málþófi. Ég fór í andsvar. Það hefur nú ekki hingað til þótt neitt voðalega mikið málþóf að fara í andsvar þegar maður getur talað í tvær mínútur. Ég minnist þess að hv. þm. Ögmundur Jónasson talaði einu sinni í sex klukkutíma, klukkan sex um morguninn komst ég í andsvar við hann. Þá voru reglurnar öðruvísi og þótti ekki mikið að því að fara í ekta og raunverulegt málþóf. Nei, nei, ég er að tala um þetta mál af því ég hef mikinn áhuga á því og ég vil skilja það. Ég sit ekki í hv. nefnd sem um það fjallar og ég hef ekki heyrt í þeim gestum sem komu til nefndarinnar. Þess vegna veit ég ekkert hvernig stjórn þessa fyrirtækis er háttað, ég hef heyrt af því að einn hv. þingmaður sé þar í stjórn sem er fulltrúi svæðisins þess utan, þar séu sveitarfélögin líka með fulltrúa. Ég hef ekkert heyrt í þessum gestum. Ég hef heldur ekki getað heyrt í Félagi íslenskra bifreiðaeigenda um efasemdir þeirra o.s.frv. Það er svo langt frá því að þetta sé málþóf að ég á bara ekki orð, frú forseti. Mér finnst ég hafa talað mjög málefnalega og ég kemst varla yfir það sem ég ætla að segja.

Svo gat hv. þingmaður frekar en endranær ekki látið hjá líða að minnast á hrunið. Í hans huga er nefnilega hægt að afsaka allt með hruninu, allar þær vitleysur sem hæstv. núverandi ríkisstjórn gerir er hægt að afsaka með hruninu og það skal gert áfram vegna þess að hæstv. núverandi ríkisstjórn ber ekki ábyrgð á nokkrum sköpuðum hlut. Það er bara þannig. Það er búið að klúðra kosningu til stjórnlagaþings. Það er búið að klúðra hinu og þessu. Það er búið að kæra ráðherra. Það ber enginn ábyrgð, aldrei nokkurn tímann. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁI): Nú vill forseti spyrja hv. þingmann hvort hann eigi …)

Ég á mjög lítið eftir, frú forseti.

(Forseti (ÁI): Nú vill forseti spyrja hv. þingmann hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni þar sem einn hv. þingmaður hefur óskað eftir að fara í andsvar og fyrirhugað var að halda hádegishlé milli klukkan eitt og hálftvö.)

Já, ég spurði einmitt að því áðan. Ég á mjög lítið eftir. Ég held meira að segja að ég sé nánast búinn, nema ég á einn punkt eftir. Það er það sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson nefndi, að menn skyldu ekki hafa verkkvíða. Auðvitað eiga menn ekki að hafa verkkvíða, en menn eiga að hafa verkkvíða þegar þeir ætla að eyða peningum sem þeir eiga ekki, þá eiga þeir virkilega að skoða hug sinn og velta hlutunum fyrir sér: Bíðið nú við, er rétt að fara í þessar framkvæmdir sem ég á ekki fyrir? Á ég bara að vaða endalaust í einhverjar framkvæmdir og hafa ekki verkkvíða? Það er kannski það sem einkenndi útrásina um of að menn höfðu ekki verkkvíða. Þeim var alveg sama þótt allt væri gert með lánum.