139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

707. mál
[13:44]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér er frumvarp sem hefði átt að vera ágætissátt um, og var það. Breytingarnar á því tengjast ýmsu sem snýr að hreindýraveiðum og eru gerðar meðal annars til að tryggja það að eftir tíu ár verði hægt að hafa leiðsögumannanámskeið fyrir þá sem hafa áhuga á því að verða leiðsögumenn fyrir hreindýraveiðar.

Ég vek hins vegar athygli á því að framkvæmdin á þeim leiðsögumannanámskeiðum sem eru í gangi núna og byrja í dag er með þeim hætti að ef menn hafa ætlað sér að reyna að hafa gjaldið fyrir þetta námskeið eins hátt og mögulegt er hefur mönnum tekist það býsna vel. Þetta er víti til varnaðar fyrir okkur, þrátt fyrir að við göngum frá einhverjum lagafrumvörpum hafa menn því miður tækifæri til að framkvæma það með öðrum hætti en lagt er af stað með og er það mjög miður. Þetta er örugglega ástæða fyrir því að fólk er oft fullt tortryggni þegar kemur að umhverfismálum og framkvæmd ýmissa hluta hjá stofnunum framkvæmdarvaldsins, í þessu tilfelli (Forseti hringir.) Umhverfisstofnunar. Ég ætla samt sem áður að styðja þetta mál og hvet menn til að gera það líka.