139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

niðurstaða í máli fyrir kærunefnd jafnréttismála.

[13:53]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að rifja upp baráttu mína fyrir jafnréttismálunum og jafnréttislögunum. Hv. þingmaður hefði mátt jafnvel fara ítarlegar í það en hún gerði.

Varðandi það tiltekna mál sem þingmaðurinn nefndi er það í ákveðnum farvegi. Ég hef einu sinni eða tvisvar áður rætt um þetta mál og afstaða mín hefur í raun ekkert breyst. Rýnihópur var settur í málið því að forsendur kærunefndar og þess hóps sem ég var með í þessu máli, þar sem voru mannauðsráðgjafi og fleiri, voru mismunandi. Niðurstaðan sem komist var að var mismunandi hjá Jafnréttisráði og þessum hópi, sem gaf tilefni til þess að skoða jafnréttislögin, reglugerðir og það mat sem mannaráðningar eru byggðar á, með tilliti til jafnréttislaga og í raun stöðuna almennt.

Varðandi þetta tiltekna mál er það í eðlilegum farvegi. Það hefur komið fram áður að ég ætla ekki að fara með það fyrir dómstóla. Ég vil leita sátta í málinu og að því hefur verið unnið. Ríkislögmaður og lögmaður þessa aðila hafa verið að ræðast við um málið og í þeim farvegi er það núna, það er verið að reyna að leita sátta í málinu.