139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

niðurstaða í máli fyrir kærunefnd jafnréttismála.

[13:54]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég er algjörlega ósammála hæstv. forsætisráðherra um að málið sé í eðlilegum farvegi. Lögin eru alveg skýr og sá rýnihópur sem hæstv. forsætisráðherra hefur sett yfir málið, vinnuhópur eða hvað sem á að kalla hann, hefur enga stjórnsýslulega eða stjórnskipulega merkingu, enga. Lögin eru skýr. Ef einhver er í aðstöðu til að framkvæma það sem núverandi hæstv. forsætisráðherra hefur barist fyrir í áraraðir er það hún sjálf.

Ég skil þetta bara ekki. Það eru liðnir rúmir þrír mánuðir frá því að niðurstaða lá fyrir. Þann 31. mars sagði hæstv. ráðherra í þinginu að hún væri að bíða eftir áliti frá ríkislögmanni. Hvers konar framkoma er það gagnvart brotaþola í þessu máli? En það er eins og alltaf hjá þessari ríkisstjórn að það ætlar enginn að axla ábyrgð. Hvers lags er þetta? Er þetta fyrirmyndin sem við viljum sjá varðandi (Forseti hringir.) umgengni í jafnréttismálum? Forsætisráðherra verður að átta sig á því að hún er lykilmaður, hún er forustumaður í því að virða jafnréttismálin og það (Forseti hringir.) gerir hún ekki.