139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

samningsmarkmið í ESB-viðræðum.

[14:12]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Ég minni í þessu sambandi á að í nefndarálitinu og greinargerð sem fylgdi samþykkt þingsályktunartillögunnar um að senda inn umsóknaraðild að Evrópusambandinu stendur, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn leggur áherslu á að skýr stuðningur við mjólkurframleiðslu og annan hefðbundinn búskap verði eitt af samningsmarkmiðum Íslands. Það á t.d. við um afnám tolla þar sem tollverndin hefur verið ein af stoðum íslensks landbúnaðar, ekki síst hefðbundins landbúnaðar.“

Síðan eru rakin fleiri af þessum atriðum í nefndarálitinu. Þá vil ég og vitna til þess sem stendur líka í nefndarálitinu um skilyrt umboð. Áherslan í nefndarálitinu er eins og þar stendur:

„Nefndin hefur fjallað ítarlega um þá meginhagsmuni sem stjórnvöldum ber að hafa að leiðarljósi í aðildarviðræðum við ESB. Mat meiri hlutans er að það sé fullnægjandi veganesti fyrir stjórnvöld og að tiltekin skilyrði í umboði ríkisstjórnarinnar muni ekki skila neinu umfram það. Á hinn bóginn leggur meiri hlutinn áherslu á að ríkisstjórnin fylgi þeim leiðbeiningum sem gefnar eru með áliti þessu um þá grundvallarhagsmuni sem um er að ræða. Að mati meiri hlutans verður ekki vikið frá þeim hagsmunum án undanfarandi umræðu á vettvangi Alþingis og leggur meiri hlutinn til að orðalagi þingsályktunartillögunnar verði breytt með hliðsjón af þessu.“

Þess vegna tel ég alveg óyggjandi, eins og hv. þingmaður víkur að, að það verði tilgreint hverjir meginhagsmunir Íslands eru varðandi þessar aðildarviðræður. Auðvitað stillum við þeim upp og að sjálfsögðu víkjumst við ekki undan þeim nema það komi þá aftur inn til Alþingis.