139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[14:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta umhvn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti meiri hluta umhverfisnefndar, sem er að finna á þskj. 1529, um breytingu á lögum nr. 65/2007, um losun gróðurhúsalofttegunda.

Þingmönnum til upprifjunar fjallar frumvarp þetta um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Þar er lagt til að innleiddar verði í íslenskan rétt reglur um viðskiptakerfi með losunarheimildir fyrir gróðurhúsalofttegundir, þ.e. ETS-kerfið. Kerfið hefur verið virkt innan Evrópusambandsins frá 2005. EFTA-ríkin hafa verið aðilar að því frá 2008 en Ísland hefur verið sérstaklega undanþegið.

Ástæðan fyrir því að lagt er til að taka þetta í lög hér á landi er að frá 1. janúar 2012 fellur allt flug innan Evrópska efnahagssvæðisins, til þess og frá, undir kerfið og frá 1. janúar 2013 mun kerfið ná til fleiri tegunda en nú, svonefnds staðbundins iðnaðar og gróðurhúsalofttegunda. Þá, sem sagt eftir 2013, mun myndast einn sameiginlegur pottur losunarheimilda fyrir allt svæðið og ákvarðanir á úthlutun byggjast á árangursviðmiðum sem verða þau sömu fyrir allt svæðið. Væntanlegt er frumvarp á næsta þingi um þátttöku iðnstarfsemi í viðskiptakerfinu á grundvelli tilskipunar 2009/29/EB, en hún er á leið inn í EES-samninginn. Það frumvarp sem við hér ræðum tekur því fyrst og fremst til flugstarfseminnar en til þess að tryggja að íslensk fyrirtæki sitji við sama borð og fyrirtæki annars staðar á EES-svæðinu er mikilvægt að fylgja hér sömu tímafrestum og við önnur ríki.

Frú forseti. Ég ætla ekki að fara ítarlega yfir það hvernig kerfið virkar enda var það gert við 1. umr. málsins þegar hæstv. ráðherra mælti fyrir frumvarpinu. Í stórum dráttum er það þannig að 85% af heimildunum sem fara í pottinn verður úthlutað á grunni árangursviðmiða en 15% verða sett á uppboðsmarkað. Það fyrirkomulag mun gilda óbreytt til 2020 en á uppboðsmörkuðunum getur hver sem er keypt heimildir til eigin nota, til þess að selja aftur síðar eða jafnvel til þess að draga úr losun. Það verður sem sagt hægt að framselja þessar heimildir og kaupa og selja að vild. Hver heimild verður hins vegar aðeins nýtt einu sinni og til þess að fá úthlutað heimild þarf að uppfylla ákveðin skilyrði.

Í umfjöllun nefndarinnar kom fram að við innleiðingu viðskiptakerfisins fyrir flugið hér á landi þurfa allt að 170 flugrekendur að sækja um losunarleyfi hérlendis. Af þeim eru 135–140 tiltölulega smáir flugrekendur sem áður hafa verið í umsjón annarra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu, þar af um 45 sem flytjast hingað frá Bretlandi, þar á meðal er Icelandair, síðan 16 frá Frakklandi og 15 frá Ítalíu. Í kerfið bætast um 35 flugrekendur frá ríkjum utan EES-svæðisins sem koma í fyrsta sinn inn í kerfið og stærsti nýi flugrekandinn sem kemur inn er Flugfélag Íslands.

Við undirbúning frumvarpsins var haft samráð við Samtök atvinnulífsins, flugrekendur og þá iðnrekendur sem efni frumvarpsins varðar. Þá kom fram í máli gesta að forráðamenn fyrirtækjanna sem við sögu koma gera sér allir góða grein fyrir þeim breytingum sem í vændum eru og leggja áherslu á að þetta frumvarp nái fram að ganga sem allra fyrst. Bent var á að tímafrestir í frumvarpinu gætu verið nokkuð knappir en til þess að bæta úr því hefur meiri hlutinn lagt til breytingar á dagsetningum í ákvæðum sem á að bæta við lögin, þ.e. ákvæðum til bráðabirgða I og II, þannig að nægjanlegt svigrúm sé fyrir aðila að bregðast við nýjum lögum. Þær breytingartillögur sem er að finna í sama þingskjali með nefndarálitinu eru þannig að frestirnir sem tilgreindir eru í frumvarpinu verði fram til 15. júní á þessu ári.

Að lokum vil ég geta þess meðan ég er í ræðustól, herra forseti, að huga þarf að kostnaði við aðkomu Flugmálastjórnar í þessu sambandi en ekki er hægt á þessu stigi að gera sér grein fyrir því hvert umfang þess verkefnis verður. Það verður væntanlega ekki hægt að gera það fyrr en farið verður að vinna eftir lögunum. Meiri hluti beinir því þess vegna til forráðamanna Umhverfisstofnunar og Flugmálastjórnar að fylgjast grannt með þróun þessa samstarfs og benda ráðuneytum sínum á hugsanlegan kostnaðarauka sem af því kann að hljótast.

Þær breytingartillögur aðrar en þær sem ég nefndi varðandi frestina til 15. júní nk. eru eingöngu orðalagslegs eðlis, það eru engar efnisbreytingar. Af því má sjá að við umfjöllun nefndarinnar voru menn sáttir við framsetningu málsins í frumvarpinu og mikil sátt myndaðist um framgang þessa máls.

Undir nefndarálitið skrifa, auk þeirrar sem hér stendur, hv. formaður nefndarinnar Mörður Árnason og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir, Birgir Ármannsson, Kristján Þór Júlíusson og Skúli Helgason. Hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Birgitta Jónsdóttir skrifuðu undir álitið með fyrirvara.

Af þessu má sjá að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, fulltrúi Framsóknarflokksins, skipar minni hluta hv. umhverfisnefndar. Ég vil taka það fram að nefndarálit hv. þingmanns er mjög ítarlegt, yfirgripsmikið og vel unnið og ég þakka henni kærlega fyrir það yfirlit sem um þennan málaflokk er að finna þar. Ég get hins vegar á engan hátt verið sammála hv. þingmanni um niðurstöðuna sem hún dregur af þeirri samantekt, sem er tillaga um að málið verði fellt. Ég tel þvert á móti mjög brýnt að vekja athygli þingheims á því að hér er um gríðarlega mikla hagsmuni fyrir flugrekendur á Íslandi að tefla og allur iðnaðurinn, flugrekendur og þeir sem komu fyrir nefndina lögðu mikla áherslu á að málinu yrði lokið sem allra fyrst.

Ég legg síðan til að málið fari til 3. umr.