139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[14:43]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að deila við hv. þingmann um fortíðina en ég þykist vita að við höfum ólíka afstöðu til Kyoto-undanþágunnar sem Ísland fékk og þess sérstaka ákvæðis sem þar var um að ræða. Það hafa verið skiptar skoðanir um leiðir í þessu sambandi. Við erum hins vegar með málin í ákveðnum farvegi og við hv. þingmaður er sammála um að það er æskilegt að fyrst svo er njóti íslensk fyrirtæki sem starfa á þeim sviðum sem undir þetta heyra sömu réttinda og önnur fyrirtæki á Evrópusvæðinu þannig að ég held að af þeim ástæðum getum við sameinast um stuðning við þetta mál.

Síðan verð ég að játa að ég hef auðvitað aðra ástæðu til að styðja þetta, þá að þarna er um að ræða vissa tegund markaðskerfis sem felur í sér framseljanlega kvóta sem geta gengið kaupum og sölum. Ég held að til lengri tíma litið muni þetta eins og á öðrum sviðum leiða til aukinnar hagkvæmni.