139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[14:51]
Horfa

Frsm. minni hluta umhvn. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það var gaman að heyra framsögumanninn fara úr ræðustól með það á vörunum að auðlindir Íslendinga skyldu vera í þjóðareign en ekki í eigu einstaklinga. Hér er verið að færa á verðlagi ársins 2007 15 milljarða úr ríkiseigu yfir til einkaaðila. Við gætum jafnvel tvöfaldað þá upphæð núna vegna gengisþróunar. Árið 2007 þegar gerð var úttekt á verðmætum íslensku losunarheimildanna voru þau 15 milljarðar. Það var tekin pólitísk ákvörðun um að berjast ekki fyrir réttindum þjóðarinnar og í þess stað ákveðið að fara þessa Evrópusambandsleið.

Áður en ég les nokkuð úr nefndaráliti mínu langar mig að minnast á að það er hálfankannalegt að heyra hæstv. forsætisráðherra blóta kvótakerfinu í sjávarútvegi úr ræðustóli og tala meðal annars um að fénýta heimildir. Hún finnur sjávarútvegskerfinu allt til foráttu, hvernig það hefur byggst upp, þótt hún hafi tekið þátt í því síðustu 33 árin að byggja það upp. Í þessu frumvarpi er nefnilega lagt til að færa losunarheimildir til einkaaðila, til þeirra sem hafa rekstur stóriðjunnar í hendi sér í dag og þeirra sem sjá um flugsamgöngur.

Hæstv. forsætisráðherra talar oft um sægreifa. Eftir 15–20 ár kemur þá hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir, vonandi hætt á þingi, líklega til með að tala um loftgreifa því að hér er lagt til (Gripið fram í: Losunar…) að markaðsvæða andrúmsloftið sem er auðlindin sjálf.

Svona veit hægri höndin stundum ekki hvað sú vinstri er að gera en eins og ég benti á er komin upp sú einkennilega staða að hér er verið að afleggja eitt kvótakerfi og sama daginn að taka upp nýtt. Í öðru tilvikinu er verið að afleggja sjávarútvegskerfi, í hinu taka upp kvótakerfi með losunarheimildir.

Það hefur komið fram í orðum flutningsmanns meirihlutaálitsins að kerfið sjálft sé gert til þess að draga úr losun. ETS-kerfið er ekki gert til þess vegna þess að losunin byggir á alþjóðasamþykktum og þá er ég sérstaklega að vísa í Kyoto-bókunina þar sem markmið hennar var fyrst og fremst að draga úr losun hjá þeim ríkjum sem eru aðilar að Kyoto-bókuninni. Ég minni til dæmis á að fæst iðnríki heims eru aðilar að þeirri bókun. Bandaríkin eru ekki aðili að Kyoto-bókuninni, ekki Indland og ekki Kína sem losar þó gríðarlegt magn. Hér er alveg um tæra snilld að ræða í að búa til alheimsvandamál og búa til úr loftinu kvótakerfi sem á svo að ganga kaupum og sölum. Það verður hægt að veðsetja þessar losunarheimildir þannig að það er verið að finna hér upp splunkunýja spilapeninga og eins og kemur fram ætla allir flokkar á Alþingi að styðja það. Ég legg hins vegar til að frumvarpið verði fellt.

Það er líka dásamlegt að sjá að vinstri grænir og sjálfstæðismenn skuli ná saman í svo veigamiklu máli sem fellur algjörlega að hugmyndafræðinni um markaðsbúskap.

Fjöldi tilskipana og reglugerða sem varða viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda hefur nú þegar verið settur og fleiri eru væntanlegar. Það er raunverulega verið að fara með þessa kratavæðingu inn í þetta embættismannaferli og það er lagt til í frumvarpinu að við tökum þetta kerfi upp.

Mig langar aðeins til að fara í þá staðreynd að andrúmsloftið er auðlind í tvennum skilningi. Í fyrsta lagi er hreint og ómengað andrúmsloft forsenda heilbrigðis og velferðar mannkyns, auk þess að vera forsenda tiltekinna gæða annarra náttúruauðlinda eins og vatns, jarðvegs og lífríkis. Í öðru lagi er andrúmsloftið auðlind að því leyti sem það tekur við útstreymi lofttegunda sem stafa frá ýmiss konar starfsemi. Um allan heim hefur athygli manna beinst að nauðsyn þess að vernda umhverfið fyrir röskun og spjöllum. Hér hefur orðið mikil þróun á heimsvísu allt frá 1972 þegar þáttaskil urðu á alþjóðavettvangi í umhverfismálum er Sameinuðu þjóðirnar boðuðu til fyrstu alþjóðaráðstefnunnar á sínum vegum. Nefndist sú ráðstefna Stokkhólmsráðstefnan og upp úr henni var Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna stofnuð. Í framhaldi af því var Brundtland-nefndin svokallaða sett á fót og svo náðist áfangi í loftslagsmálum þegar Vínarsamningurinn um vernd ósonlagsins var samþykktur árið 1985, síðar Ríóyfirlýsingin 1992 og að lokum Kyoto-bókunin sem var breyting gerð við loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna sem áður gilti.

Það átti að ákvarða um Kyoto-bókunina á Kaupmannahafnarráðstefnunni sem haldin var í lok árs 2009. Kyoto-bókunin átti einungis að gilda í fimm ár, þ.e. til ársloka 2012. Hún rennur því skeið sitt á enda eftir eitt og hálft ár. Kaupmannahafnarráðstefnan sprakk hins vegar í loft upp og þjóðirnar náðu engu samkomulagi um hvað ætti að taka við í loftslagsmálum eftir 31. desember 2012. Það ríkir því algjör óvissa um þær alþjóðareglur sem átti að setja um losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta viðskiptakerfi kemur því ekki við, þarna er fyrst og fremst verið að markaðsvæða viðskiptakerfið sjálft en það er ekki endilega gert til að draga úr mengun. Upphaflega er kvótum úthlutað til fyrirtækja og flugfélaga í rekstri og svo er hvatning fyrir til dæmis stóriðju að taka upp nýjan hreinsibúnað til að minnka mengun og draga úr gróðurhúsalofttegundum. Þá fá fyrirtækin sjálf það svigrúm sem sparast og geta farið á markað með þær heimildir sem sparast við nýjan hreinsibúnað, selt, leigt eða veðsett, þannig að markaðskerfið sjálft, þetta ETS-kerfi, dregur ekki úr losun. Það býr fyrst og fremst til peninga fyrir þá aðila sem fengu kvótann eða koma til með að fá kvótanum úthlutað ókeypis í fyrstu umferð.

Ég fer í nefndaráliti mínu líka yfir þá lagaþróun á Íslandi sem snýr að losunarheimildum. Ég fer vel yfir íslenska ákvæðið sem náðist í gegn fyrir harðfylgi hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur í samningalotu á sínum tíma. Þá var hæstv. utanríkisráðherra óbreyttur þingmaður og taldi að þessi krafa Íslendinga yrði hlegin út af borðinu, en Framsóknarflokknum tókst undir forustu Sivjar Friðleifsdóttur í umhverfismálum að ná því ákvæði inn vegna þess að annars hefðum við ekki getað uppfyllt markmið Kyoto-bókunarinnar. Þetta var fyrst og fremst rökstutt með því að við værum með lítið hagkerfi og framleiddum raunverulega alla okkar orku græna og þess vegna væri álið sem væri framleitt hér á landi grænna en það ál sem væri framleitt í spúandi kolaverksmiðjum.

Það var mikill sigur fyrir svo lítið ríki að fá þetta viðurkennt í Marakess árið 2001 og sú ákvörðun sem íslenska ákvæðið byggði á var kölluð Áhrif einstakra verkefna á útstreymi á skuldbindingartímabilinu. Það hefur svo sem aldrei verið mikið talað um þann sigur sem Íslendingar unnu þarna úti, en eftir á að hyggja var alveg einstakt að þetta væri með þessum hætti.

Meðal annars voru rökin fyrir því að við fengjum ákvæðið inn, eins og ég kom inn á áðan, náttúrlega endurnýjanleg orka og loforð um að hér yrði notuð besta fáanlega tækni við álframleiðsluna.

Svo fengu Íslendingar líka úthlutað innan ramma Kyoto-bókunarinnar almennum losunarheimildum sem byggðust á mengunarreynslu og þá erum við farin að spegla þetta kerfi við íslenska sjávarútvegskerfið. Hér hefur verið rekin stóriðja frá árinu 1958 þegar Sementsverksmiðjan hóf rekstur og síðan bættist álverið í Straumsvík við, Íslenska járnblendifélagið hóf rekstur 1979 og þá var þessi stóriðja búin að vera í rekstri þegar viðmiðunarárið 1990 var ákveðið. Út frá þeirri stóriðju fengum við líka mengunarreynslukvóta. Um þetta er hægt að lesa enn betur í nefndarálitinu.

Þeir sem nýta losunarheimildir hér þurfa að verða sér úti um starfsleyfi til að hefja starfsemi og fer það þá í viðeigandi farveg. Umhverfisstofnun verður að votta það að viðkomandi aðilar þurfi að verða sér úti um loftslagsheimildir. Á bls. 6 og 7 í nefndarálitinu er kafli um skyldu atvinnurekstrar sem losar loftslagsheimildir og um úthlutun losunarheimilda á Íslandi er nokkuð stór kafli þar sem ég fer yfir það hverjir þurftu að sækja um. Fyrsta úthlutun var 1. júní 2007. Hér eru tvær töflur þar sem er farið yfir hverjir sóttu um, hvað þeir sóttu um margar losunarheimildir, hvað þeir fengu af almennu losunarheimildunum og hvað þeir fengu samkvæmt íslenska ákvæðinu. Svo er hér líka seinni losunin þegar ný fyrirtæki hófu rekstur eins og Alcoa á Reyðarfirði og Norðurál á Grundartanga. Þessar upplýsingar er hægt að nálgast á vef Alþingis.

Eftir árið 2008 varð ekki um að ræða frekari úthlutanir á loftslagsheimildum því að þá hafði verið tekin pólitísk ákvörðun um að afsala sér þessum mengunarreynslukvóta á íslenska ákvæðinu. Ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins tók pólitíska ákvörðun um það. Þarna var strax farið að huga að þessari Evrópusambandsumsókn og þetta er eitt af þeim skilyrðum sem Evrópusambandið setur Íslendingum, ef við eigum að eiga einhvern séns á því að umsóknin verði samþykkt af Evrópusambandinu þurftum við að undirgangast þetta kerfi. Öll mál sem koma inn á Alþingi blandast saman við þessa umsókn. Það má eiginlega segja að það sé alveg sama hvaða hagsmunir íslensku þjóðarinnar eru í húfi, þeim er fórnað á altari ESB.

Ég fer líka yfir framsal losunarheimilda hér á landi sem of langt mál er að lesa upp, en mig langar aðeins til að taka stöðuna í dag.

Með þessu frumvarpi er lagt til að innleiddar verði í íslenskan rétt reglur um viðskiptakerfi Evrópusambandsins, eins og ég hef farið yfir. Starfsemi kerfisins sem kallað er ETS er í sífelldri endurskoðun og framtíð stofnunarinnar átti að ráðast á Kaupmannahafnarráðstefnunni. (Gripið fram í.) Eins og ég fór yfir áðan fór Kaupmannahafnarráðstefnan út um þúfur og ekkert samkomulag náðist. Það varð því ekki neitt úr því að sættir næðust um það hvað tæki við að afloknu skuldbindingartímabili Kyoto-bókunar eftir 31. desember.

Þetta ETS-kerfi var stofnað í janúar 2005 og er rekið af ríkjum Evrópusambandsins. Að sjálfsögðu byggist tilvist þessarar stofnunar á tilskipunum og hún er sú stærsta sinnar tegundar í heiminum, hefur viðskipti með koldíoxíð og hefur á skömmum tíma orðið einn aðaldrifkrafturinn að baki útþenslu heimsmarkaðarins með koldíoxíð.

Þarna erum við komin með nýtt loftbóluhagkerfi, þarna er verið að selja losunarheimildir og stofninn hefur þanist út síðustu árin vegna þess að þetta er nú þegar farið að ganga kaupum og sölum.

Það byggir líka á inneignum sem of langt mál er að fara yfir, svokölluð CDM-inneignum og JI-inneignum, og það spilaði inn í þróunarstarf og annað. Um þetta getur fólk lesið í nefndarálitinu.

Sú stefna ríkisstjórnarinnar að ganga þessu kerfi á hönd án þess að berjast fyrir íslenska ákvæðinu og mengunarreynslukvóta Íslands finnst mér afar ámælisverð og ég tel það ganga þvert á þjóðarhagsmuni. Svo virðist enn og aftur sem undirgefni stjórnvalda hafi orðið ljós vegna aðildarumsóknar landsins að ESB og því hefur beinlínis verið haldið fram að umsóknin væri í hættu eins og ég fór yfir áðan. Það var svo skrýtið að í september 2006 var skipaður starfshópur sem hafði það hlutverk að móta samningsmarkmið Íslands fyrir Kaupmannahafnarráðstefnuna 2009. Var sá hópur skipaður af fulltrúum þriggja ráðuneyta en einhvers staðar á þessari leið var hætt við að berjast fyrir þessum ákvæðum þó að það hafi verið pólitísk ákvörðun að gera það. Þá er ég sérstaklega að vísa í íslenska ákvæðið vegna okkar grænu orku.

Það gerðist svo nýverið að gildissvið tilskipunarinnar sem nú er verið að innleiða hér var rýmkað umtalsvert með annarri tilskipun. Breytingin er afar þýðingarmikil fyrir Ísland, eða við skulum segja afdrifarík því að hún felur í sér að losun koldíoxíðs frá álframleiðslu og járnblendi mun nú heyra undir kerfið sjálft og verða háð losunarheimildum frá 1. janúar 2013. Þá gengur stóriðjan inn í þetta kerfi.

Það er viðurkennt í tilskipun 2009/29/EB að lögleiðing gerða þessara og tilskipana feli í sér að gagngerar breytingar á reglum um úthlutun losunarheimilda auki vald stofnana Evrópusambandsins við framkvæmd kerfisins á kostnað aðildarríkjanna. Þarna sjáum við þessa kratavæðingu, embættismannavæðinguna, birtast í þessari tilskipun. Ríkisstjórnin hefur einmitt verið að innleiða þetta í íslenska löggjöf, raunverulega að framselja vald sitt frá Alþingi yfir í ráðuneytin til embættismanna sem eiga að setja reglugerðir, en hjá Evrópusambandinu er því þannig háttað að aðildarríkin framselja vald sitt til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og hafa því ansi lítið að segja um lagasetningu og þær reglur sem Evrópusambandið spilar eftir.

Eins og hefur verið farið yfir fer stóriðjan yfir í þetta kerfi 1. janúar 2013. Ég óttast mjög, herra forseti, stóriðjuleka út úr Evrópusambandinu. Ég óttast mjög stóriðjuleka út úr Íslandi því að auðvitað sjá fyrirtæki sér hag í því að staðsetja rekstur sinn þar sem rekstrarkostnaður er lægstur. Með upptöku þessa kerfis er verið að leggja aukagjald á iðnaðinn. Fyrirtæki sem hefja starfsemi þurfa að verða sér úti um losunarheimildir og þær eiga eftir að hækka í framtíðinni eins og við þekkjum úr öðrum kvótakerfum. Andrúmsloftið er takmörkuð auðlind. Þegar um kvótaúthlutun úr takmarkaðri auðlind er að ræða leiðir það af sér sífellt hærra verð fyrir þær heimildir sem í boði eru.

Fiskveiðistjórnarkerfið býður þó að minnsta kosti upp á eitthvað áþreifanlegt. Fiskurinn er andlag kvótans, fiskurinn er áþreifanlegur og skapar hér mikil verðmæti. Í losunarheimildakerfinu er ekkert andlag annað en ímyndað loft, útblástur sem er ekki áþreifanlegur og hefur einungis það í för með sé að rekstrarkostnaður fyrirtækjanna hækkar. Það er skrýtið að þetta skuli vera komið í þessar ógöngur.

Ég spyr, herra forseti: Er það atvinnustefna Samfylkingarinnar að útrýma stóriðju á Íslandi? Við getum sett okkur í spor þessara aðila sem hyggjast hefja hér rekstur sem losar gróðurhúsalofttegundir. Maður mundi fara eitthvað annað en til lands sem setti þessa kvóta á reksturinn í stað þess að hefja rekstur í landinu. Venesúela er gott dæmi um land sem hefur verið í samkeppni um stóriðju. Það er ekki inni í þessu kerfi. Evrópusambandið gæti einnig gripið til þess ráðs ef það sér fram á mikinn stóriðjuleka út úr Evrópusambandinu að ríkin eða Evrópusambandið sjálft kaupi losunarheimildir og úthluti þeim upp á nýtt til aðila sem vilja komast inn á svæðið. Samkvæmt frumvarpinu er ákveðinn hluti þessara heimilda skilinn eftir til nýliðunar. Við könnumst líka við umræðuna um nýliðun í sjávarútvegi. Þetta er allt mjög keimlíkt, illa hugsað finnst mér að vissu leyti, vegna þessa stóriðjuleka.

Þá að hinu, þessu um flugið sem mér finnst enn þá alvarlegra fyrir íslenskan almenning. Þar sem Ísland er eyja eins og við öll vitum er lögð sú skylda á flugrekendur að þeir verði sér úti um loftslagsheimildir og þurfi raunverulega að kaupa sig inn í lofthelgi Íslands til að mega fljúga hingað. Eins er það með Evrópusambandið, flugrekstraraðilar utan Evrópusambandsins þurfa að kaupa sig inn í lofthelgi Evrópusambandsríkjanna, enda hefur það sýnt sig að bandarískir flugrekendur sætta sig ekki við þessar aðgerðir Evrópusambandsins og hafa kært málið til Evrópudómstólsins á grundvelli Chicago-samningsins sem er samningur um flugmál. Þeir byggja röksemd sína á því að þarna sé um skatt að ræða sem er óheimill samkvæmt Chicago-samningnum.

Málalok í þessum dómsmálum verða ekki fyrr en síðsumars en samt keyrir ríkisstjórnin þetta frumvarp hér áfram og gerir þetta líklega að lögum. Ef Evrópudómstóllinn kemst að því að um skattlagningu sé að ræða fellur málið um sjálft sig og kerfið er ónýtt. Þá er ekki hægt að leggja þetta á flugið.

Við höfum íslenskt dæmi, herra forseti, um brot á Chicago-samningnum sem er alveg nýtt af nálinni, þegar hæstv. fjármálaráðherra lagði kolefnisgjald á flug, fyrir jólin að mig minnir, í skattlagningarformi. Hér áttu að innheimtast þó nokkuð margir milljarðar við það. Erlendir flugrekendur bentu á að um óeðlilega og ólöglega skattlagningu væri að ræða samkvæmt Chicago-samningnum þannig að málalok urðu þau að þeir aðilar sem fljúga til og frá landinu greiða ekki þetta gjald en þessi snilldarskattur lagðist á íslenskt flug. Við Íslendingar og þeir erlendu aðilar sem ferðast hér innan lands með flugi fengum þetta gjald í hausinn og þurfum að standa skil á því. Þetta hefur ekki farið hátt. Hæstv. fjármálaráðherra hefur ekki mikið talað um það neins staðar.

Rökin fyrir því að bandarísku flugrekendurnir vinni þetta mál eru mjög mikil, sérstaklega vegna þess að splunkunýtt fordæmi frá Íslandi sýnir að öll skattlagning á flug og ójafnræði milli aðila er ólöglegt.

Svo er það líka með Evrópuelítuna sem ég kalla, kratavæðingu Evrópusambandsins, að hugmyndin er sú að allir séu jafnir. Í Evrópuhugsuninni eru hins vegar sumir jafnari en aðrir. Það birtist sannarlega í þessu frumvarpi því að á hvert flugsæti í byrjun er áætlað að þessi losunarkvóti verði á bilinu 5–30 evrur, ekki vitað og ekki hægt að gefa nákvæmari upphæð sem mér finnst mjög skrýtið, og þá erum við að tala um í fyrstu umferð. Þetta á eftir að hækka í framtíðinni. Þetta gjald á að lenda á almennum borgurum í þeim ríkjum sem eru innan ETS-kerfisins. Þessu frumvarpi fylgja viðaukar og það er alveg einstakt að lesa III. viðauka við frumvarpið því að þá sést hverjir eru undanþegnir þessu gjaldi.

Þeir sem ekki þurfa að verða sér úti um losunarheimildir eru eins og ég sagði áðan elítan sjálf. Ég flokka til dæmis undir elítuna, með leyfi forseta, „flugferðir sem eingöngu eru til flutninga í opinberri sendiför ríkjandi þjóðhöfðingja konungsríkis og nánustu vandamanna hans, þjóðhöfðingja, ríkisstjórnarleiðtoga og ráðherra landa, annarra en aðildarríkja, […] herflug, toll- og lögregluflug og flug sem endar á flugvöllum þar sem loftfarið tók á loft“.

Það er líka mjög athyglisvert að þetta nær ekki yfir innanlandsflugið í ríkjum sambandsins. (Gripið fram í: Eftirlitsflug.) Þeir sem taka á loft og lenda aftur á sama stað eru undanþegnir. Við erum herlaus þjóð, fáum ekki undanþágu út af herflugi, eigum að vísu þjóðhöfðingja, en svona er þetta alltaf. Það eru alltaf einhverjar undanþágur sem leiða það af sér að skattarnir sem lagðir eru á koma úr vösum almennings. Það er alveg stórkostleg staðreynd, nokkuð sem er búið að innleiða hin síðari ár.

Það var líka einstaklega skrýtið að horfa upp á það á Kaupmannahafnarráðstefnunni 2009 að flugvellir Danmerkur voru fullir af einkaþotum þeirra sem komu til ráðstefnunnar um loftslagsmál. Þessir aðilar virðast alltaf hugsa að það séu ekki þeir sem spilla andrúmsloftinu, heldur spillir sauðsvartur almúginn andrúmsloftinu fyrir þeim. Það var fréttaefni þegar þeir komu allir á einkaþotunum sínum og voru ekkert að hugsa um hvað þeir spanderuðu í andrúmsloftinu.

Eins og ég hef farið yfir er verið að innleiða hér kvótakerfi sem hefur fengið hlutverk markaðsaflanna. Það er athyglisvert að Vinstri grænir sem hafa aðra sýn á markaðsöflin en Sjálfstæðisflokkurinn skuli standa að því að samþykkja þetta, sérstaklega í ljósi þess að það er verið að afnema kvótakerfið sem byggir á sama grunni.

Ég minni á það aftur að andrúmsloftið er auðlind en það eru teikn á lofti um að þessi hlýnun jarðar sem búið er að tala mikið um sé ekki eins hröð og áætlað var í upphafi. Það komu fréttir af því fyrir viku eða hálfum mánuði að það væri meira að segja langtum meiri útlosun út í andrúmsloftið en spár gerðu ráð fyrir. Það er alveg sama hvað það eru gerðir margir alþjóðasamningar um ósýnilega auðlind, ríkin fara ekkert eftir þessu ákvæði Kyoto-bókunarinnar og það er ekki dregið neins staðar úr losun.

Þótt talað sé um að þetta viðskiptakerfi eigi að draga úr losun nær það ekki því markmiði sínu því að fyrst og fremst er verið að markaðsvæða andrúmsloftið.

Ég tel allt of mörg vafamál gagnvart íslensku samfélagi í frumvarpinu. Sérstaklega óttast ég að stóriðjan komi til með að lenda í vanda og að hér verði ekki í framtíðinni sú uppbygging sem við þurfum á að halda. Það verður einfaldlega of dýrt að staðsetja stóriðju hér á landi og í öðrum Evrópuríkjum nái þetta frumvarp fram að ganga. Ég óttast líka um flugið, herra forseti. Við stökkvum ekki upp í lest eða rútu og komumst yfir landamæri til annarra landa. Við erum 100% háð fluginu. Nógu dýrir eru nú þeir flugmiðar sem í boði eru fyrir íslenskan almenning. Þessar losunarheimildir fara beint ofan á verð flugmiða sem almenningur borgar svo verði þetta frumvarp að lögum. Mér finnst almannahagsmunir eiga að ríkja hér sterkar í þessu frumvarpi en akkúrat það að ganga til liðs við Evrópusambandið í máli þessu. Menn hafa einhvern veginn aldrei staðið í lappirnar með þessa reglugerðavæðingu frá Evrópusambandinu í ljósi sérstöðu okkar Íslendinga, í ljósi þess að við erum eyja og eigum erfitt með samgöngur. Ég er að tala um lagasetningu undanfarinna ára og tek ekki neitt eitt út úr. Ég veit ekki hvort almenningur verður ánægður með að þurfa að borga enn hærri gjöld fyrir flugmiðana til að komast í frí eða geta fært sig frá eyjunni, það verður að koma í ljós.

Ég lýsi fullri ábyrgð á þessari lagasetningu á hendur ríkisstjórninni. Ég legg það til í lokaorðum nefndarálits míns að málið verði fellt Íslendingum til hagsbóta og þjóðinni til farsældar.