139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[15:26]
Horfa

Frsm. minni hluta umhvn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það virðist ekki vera vilji til þess í ríkisstjórninni að breyta nokkru í málinu því að embættismenn í umhverfisráðuneytinu ásamt ríkisstjórn hafa gengið það skref að leggja þetta frumvarp til og ganga þessu kerfi á hönd.

Varðandi það að setja bráðabirgðaákvæði inn um hversu lengi losunarheimildirnar verði í eignarhaldi þá er þetta raunverulega langtum stærra mál en íslenska kvótakerfið var á sínum tíma því að hér erum við að tala um alheimsauðlind. Íslenska sjávarútvegskerfið nær bara að fiskimiðum Íslendinga. Við erum að tala um alheimsauðlind sem gengur kaupum og sölum. Hvað varðar gjaldeyrinn þá eru þau viðskipti sem koma til með að eiga sér stað náttúrlega í erlendum gjaldeyri. Íslenskur aðili sem fær úthlutað ókeypis losunarkvóta, þegar frumvarpið verður gengið í gegn og tímamörk yfirstaðin, getur þá farið og lagt niður rekstur sinn og selt kvóta sinn dýrum dómum hinum megin á hnettinum. Þetta er því langtum stærra mál en nokkurn tímann íslenska kvótakerfið sem Samfylkingin og Vinstri grænir vilja afnema nú með nýjum fiskveiðistjórnarlögum.

Það er eins og fólk átti sig ekki á því hvað þetta er raunverulega stórt mál. Um leið og einhver er kominn með losunarheimild í hendurnar fer hún að byggja upp eignarréttarleg einkenni því að með tímanum getur hann farið að fénýta hana, veðsett hana, leigt hana, selt hana. Þessar heimildir erfast eins og kvótinn í sjávarútvegi. Við erum því að búa til eða réttara sagt lögleiða hér kerfi sem mætti halda að íslenska sjávarútvegskerfið væri fyrirmynd að, nema að þetta er glóbalt, þetta er á heimsvísu.

Það eru miklir hagsmunir í húfi en íslenska ríkið henti þeim hagsmunum frá sér og er að færa þennan mikilvæga kvóta (Forseti hringir.) í hendur einkaaðila. Stóriðjan og flugrekstraraðilar gleðjast auðvitað yfir því að þetta sé að verða að lögum og mæla því bót (Forseti hringir.) að lögleiða þetta og fá kvótann ókeypis.