139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[15:28]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hvert stórmálið á fætur öðru á ótrúlega stuttum tíma og maður finnur þrýstinginn sem er á því að vera ekki að tala mikið, eyða ekki miklum tíma og ekki ræða. Svo gerist það að allir bekkir, allur þingsalurinn er tómur fyrir utan forseta og mig — kemur þá einn hv. þingmaður inn í salinn sem er ánægjulegt, en ég vildi gjarnan að formaður nefndarinnar viti þó alla vega af því sem ég ætla að fara að segja og enn betra væri náttúrlega ef umhverfisráðherra væri viðstaddur svo að hann geti sagt ráðuneyti sínu hvað í rauninni er í húfi en það er geysimikið.

Ég spurði að því einu sinni fyrir langalöngu hvað Kárahnjúkavirkjun, sem ég var mjög fylgjandi, sparaði mannkyninu mikla mengun eða losun miðað við álið sem hún fæðir með raforku úr Kárahnjúkavirkjun sem notuð er til að rafgreina, þ.e. ef álið væri framleitt í Kína með rafmagni sem búið væri til með brennslu á kolum og olíu. Þáverandi hæstv. umhverfisráðherra svaraði því að það væri sexföld öll mengun umferðar á Íslandi, bílaumferðar minnir mig. Þvílíkur var sparnaðurinn í Kárahnjúkavirkjun og er enn. Við fáum ekkert borgað fyrir það. Ekkert.

Um leið og þessir markaðir koma úti í heimi — og það er athyglisvert að í viðauka I stendur, með leyfi forseta:

„Starfsemi sem fellur undir gildissvið laganna hvað varðar losun gróðurhúsalofttegunda á tímabilinu 1. janúar 2008 – 31. desember 2012.“ Það er nánast liðið.

„Eftirfarandi atvinnurekstur er óheimill á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2012 nema hann hafi aflað sér losunarheimilda eða lagt fram áætlun um hvernig hann muni afla sér losunarheimilda vegna tímabilsins í samræmi við lög þessi:“ Og starfsemin er:

„a. staðbundin orkuframleiðsla með brennslu jarðefnaeldsneytis sem losar meira en 30.000 tonn koldíoxíðs árlega.“

Það er ekkert annað, það er ekki gert neitt á Íslandi. Ekki er verið að framleiða raforku eða framleiða orku með brennslu jarðefnaeldsneytis, alls ekki. En ef þessi lög taka gildi annars staðar, í Evrópusambandinu væntanlega — raforkuver sem framleiðir raforku úr brúnkolum nálægt Köln í Þýskalandi, ég þekki það nú, þar eru gífurleg jarðlög af brúnkolum og þeim er skóflað upp með risastórri maskínu sem er búin að starfa þar alla vega síðast þegar ég vissi í 30, 40 ár, ein risastór maskína sem skóflar upp brúnkolum til að nota til að kveikja í og búa til raforku. Þetta mengar óhemjumikið, ekki bara gróðurhúsalofttegundir heldur líka rykmengun og alls konar aðrar lofttegundir, brennisteinn og annað sem mengar mjög mikið. Þó að ég geri ráð fyrir að þeir hafi reynt að ná tökum á því eins og hægt er þá er þetta eitthvað sem veldur koldíoxíðmengun um allan heim, líka á Íslandi, líka á Norðurpólnum og ætti samkvæmt þessu að vera farinn að borga einhvern skatt fyrir það að menga. Sem þýðir það að raforka frá þessum raforkuverum þarf að hækka umtalsvert. Sem þýðir það að Landsvirkjun ætti að geta hækkað verðið hjá sér umtalsvert, sérstaklega þegar þetta er komið yfir allan heiminn.

Miðað við það svar sem ég fékk um Kárahnjúkavirkjun sýnist mér að Landsvirkjun muni — ég hef engar upplýsingar, ég er ekki í nefndinni og get ekki spurt. Það væri nú gaman ef hæstv. umhverfisráðherra segði okkur, eða formaður nefndarinnar, hvað Landsvirkjun gæti hækkað orkuverð sitt mikið. Er það 100%? Er það 50%? Er það 150%? Og hvað skilar það miklum arði inn í það fyrirtæki þegar lánin hækka ekki heldur bara tekjurnar? Mér sýnist að Landsvirkjun verði alveg óskaplega verðmæt eftir þessa breytingu. Þegar menn vakna í hv. nefnd og í ráðuneytinu og fara að búa til svona markað og koma honum á á Íslandi ætti Landsvirkjun og önnur fyrirtæki, Rarik, Orkubú Vestfjarða og fleiri orkuframleiðendur sem framleiða hreina orku, þegar þeir fara í gang, að geta selt raforkuna miklu dýrara af því þau þyrftu ekki að borga kvóta.

Ég minnist þess að mikið var talað um það af einhverri ógurlegri skammsýni, ég skildi það aldrei að menn töluðu um að álverin menguðu svo mikið, þ.e. að kolefnisskautin sem notuð eru við rafgreininguna menguðu svo mikið. Samt var það ekki nema að mig minnir 10% eða 12% af endanlegri mengun hjá orkuveri sem framleiddi raforku með brennslu jarðefnis, þ.e. eitt tonn af áli í Kína mengaði margfalt, tífalt meira miðað við eitt tonn af áli á Íslandi. Þessi umræða er gjörsamlega á villigötum. Ég hef oft sagt sem svo að Íslendingar ættu náttúrlega að bjóða heiminum að framleiða hreina orku fyrir heiminn. Ef við hugsuðum svona á heimsvísu, umhverfissinnað og á umhverfisvísu ættum við að virkja eins og við mögulega getum, frú forseti. Mér finnst því þessi umræða vera ósköp skammsýn. Það er eins og menn hugsi kannski tvær vikur fram í tímann.

Ég geri ráð fyrir að þessi kenning um hlýnun jarðar sé rétt og menn muni í sívaxandi mæli fara að ýta á það að ekki verði svona mikil mengun. Við erum að tala um flugið og umræðan hérna hefur snúist eingöngu um flugið. Það er bara pínulítið, algjört smáatriði í þessari umræðu og skiptir eiginlega engu máli.

Mengun vegna brennslu á kolefnisskautunum í álverunum er líka algjört smáatriði. Menn bara hreinlega sjá ekki skóginn fyrir laufunum. Ég hef ekki séð neina áætlun um það en ég held að Landsvirkjun, Rarik og þessi fyrirtæki, já, og Magma, frú forseti, verði gífurlega verðmæt þegar fyrirtæki sem eru í samkeppni við þau erlendis þurfa að fara að borga kolefnisskatta. Fyrirtæki sem framleiða rafmagnið með því að brenna gasi, olíu og kolum sem fuðrar upp í loftið, heilu fjöllin eru brennd í Suður-Afríku af kolum, menga náttúrlega um allan hnöttinn. Síðast þegar ég vissi er jörðin okkar einn hnöttur en ekki margir eins og maður gæti skilið af umræðum sumra.

Þessi lagasetning öll byggir á ákveðnum markaði. Það er afskaplega slæmt þegar hæstv. formaður nefndarinnar kemur hingað upp og lýsir því yfir að hún hafi nú bara enga trú á markaðnum. Hvernig í ósköpunum ætlar hún þá að stöðva brennslu kolefnis um allan heim öðruvísi en með markaði? Það var reynt í Sovétríkjunum að skipuleggja allt ofan frá og það hrundi nú eins og kunnugt er. Ef menn lýsa því yfir að þeir ætli ekki að treysta á markaðinn þá veit ég ekki hvernig þeir ætla að stöðva brennslu kolefnis.

En þessar kolefnislosunarheimildir, viðskiptakerfi með losunarheimildir er einmitt mjög snjöll lausn á því að ná niður menguninni með réttum hætti.

Frú forseti. Ég ætlaði ekki að tala nema um helminginn af tíma mínum af því við erum að drífa okkur og við getum ekki rætt almennilega um hlutina, en ljóst er að losunarheimildir og gjald og verðmæti fyrir þær munu lækka verð á olíu og kolum til framleiðenda og munu hækka verð á olíu og kolum til neytenda og það myndast þarna mikil verðmæti á milli, gífurlega mikil verðmæti. Ég vil að við Íslendingar dettum ekki í sömu gryfjuna og með sjávarútveginn, og hugsum pínulítið fram í tímann, segjum fimm, tíu, fimmtán ár, og áttum okkur á hvert við erum að stefna og búum okkur undir þá gífurlegu auðlind sem verður á losunarheimildum raforkufyrirtækja.