139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[15:39]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég biðst afsökunar á að koma örlítið of seint í ræðustól. Ástæðan er sú að ég var á fundi annars staðar í húsinu og kom því tiltölulega seint inn í salinn og þurfti að afla mér upplýsinga frá framsögumanni nefndarálitsins, hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, um þá afstöðu sem hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi hér áðan, að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hefði enga trú á markaðnum. Þannig háttar til, svo furðulegt sem það nú er, að í hv. umhverfisnefnd kom til tals hvernig frumvarpið væri byggt upp, það losunarkerfi sem um ræðir. Þar er ætlunin, eins og þetta er byggt upp, að hinn frjálsi markaður annist öll viðskipti og hagræðingu og góða umgengni um andrúmsloftið á grunni þeirrar tilskipunar sem hér er lögð fram. Hv. umhverfisnefnd reiðir sig því mjög á hinn frjálsa markað og getu hans til góðra verka á grunni þessa frumvarps. Áherslan er vaxandi í hv. umhverfisnefnd á hinn frjálsa markað og trúna á einstaklinginn. Við eigum eftir að líta önnur frumvörp frá nefndinni þar sem augljóst er að trúin á hið góða í einstaklingnum nýtur vaxandi stuðnings. Ég vænti þess að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sé sammála þessari túlkun minni á afstöðu umhverfisnefndar til þeirra mála sem við fjöllum um og höfum fjallað um á síðustu vikum og tengjast umhverfismálum.

Það er raunar merkilegt að horfa til þessa máls í tengslum við önnur mál sem við erum að vinna með og ræða á Alþingi þessa dagana. Næst til viðmiðunar er kannski það umdeilda mál sem íslenska fiskveiðistjórnarkerfið er. Á árinu 1990 var komið á aflahlutdeildarkerfi þar sem aflamarki var deilt út til útgerða á grunni veiðireynslu og það var hlutdeild í þeim heildarkvóta sem samþykkt var að veiða. Allt frá því þetta kerfi var sett á hefur staðið mikill styrr um það. Það var vitað þegar það var búið til að því mundu fylgja mikil átök og erfiðleikar að ná fram nauðsynlegum breytingum í sjávarútvegi á Íslandi til að laga hann að því að við urðum að takmarka sókn okkar í fiskstofna innan lögsögu landsins. Það að veiðar úr þessum stofnum gætu ekki verið óheftar eins og verið hafði allt fram til þess árs þýddi að um leið og ákvörðun væri tekin um heildaraflamark yrði að fækka fiskiskipum og fiskvinnslustöðvum og að störfum í sjávarútvegi mundi fækka.

Þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem störfuðu í greininni var látið eftir að ná fram nauðsynlegri hagræðingu. Afskipti stjórnmálamanna af þeirri breytingu voru sáralítil sem engin. Þeim sem störfuðu í atvinnugreininni var trúað og treyst til að byggja upp á grunni lagasetningarinnar heilbrigðan atvinnurekstur sem skilaði arði til þjóðarbúsins. Það hefur lukkast á grunni þess kerfis sem búið var til og því bind ég miklar vonir við að sú reynsla hafi orðið til þess að meiri hluti umhverfisnefndar, með hv. stjórnarþingmenn í fararbroddi, hafi komist að þeirri niðurstöðu að skynsamlegt væri að innleiða í lög hér á Íslandi — og gera breytingar á lögum nr. 65/2007, um losun gróðurhúsalofttegunda — viðskiptakerfi Evrópusambandsins um losunarheimildir. Í grunninn eru nákvæmlega sömu grundvallaratriði í því kerfi og í íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu.

Í 1. gr. frumvarpsins er til dæmis talað um að markmiðið með lagasetningunni sé að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á sem hagkvæmastan hátt þannig að við getum staðið við skuldbindingar okkar. Á bls. 12 í greinargerð með frumvarpinu segir síðan, með leyfi forseta:

„Markmið tilskipunarinnar er að skapa efnahagslegan hvata fyrir fyrirtæki til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, en tilskipunin er liður í aðgerðum Evrópusambandsins til að mæta skuldbindingum sínum samkvæmt Kyotobókuninni. Viðskiptakerfið gerir fyrirtækjum kleift að selja losunarheimildir sem þau fá úthlutað af stjórnvöldum í því ríki þar sem þau starfa, takist þeim að finna leiðir til að draga úr losun. Þá geta fyrirtæki einnig keypt heimildir þurfi þau fleiri heimildir en þeim var úthlutað.“

Þegar maður horfir til ákvæða frumvarpsins, um það með hvaða hætti þessu er úthlutað, kemur það ágætlega fram í 7. gr., c-lið, þar sem fjallað er um úthlutun til losunarheimilda til flugrekstraraðila, með leyfi forseta:

„Á tímabilinu 1. janúar 2012 til 31. desember 2012 og á tímabilinu 1. janúar 2013 til 31. desember 2020 verður losunarheimildum úthlutað endurgjaldslaust til flugrekstraraðila í samræmi við árangursviðmið sem ráðherra skal ákveða með reglugerð fyrir 31. desember 2011.“

Í grunninn er því byggt á sömu grundvallaratriðum og fiskveiðistjórnarkerfið er byggt upp á.

Ég er ekki í vafa um að þetta mun reynast hið besta kerfi til að koma á þessum viðskiptum. Hins vegar má örugglega deila um það í ljósi reynslunnar hvort ekki ætti að taka einhver gjöld fyrir þessi leyfi sem hér er úthlutað o.s.frv., og við getum talað okkur hás um það atriði. En það liggur fyrir að það hefur tekið nokkurn tíma að innleiða þessa tilskipun og við höfum mjög ákveðnar áherslur frá atvinnulífinu í landinu í þá veru að Alþingi geri þetta að veruleika sem fyrst vegna þess að við séum einfaldlega að renna út á tíma.

Það kann vel að vera að það sé rétt, ekki ætla ég að draga það í efa. Það náðist ágætissamstaða um frumvarpið í nefndinni. Í áliti meiri hluta nefndarinnar, sem sjálfstæðismenn standa að, er lagt til að þetta verði samþykkt með þeim hætti sem hér er. Vissulega má segja að í aðdraganda þessarar lagasetningar á fyrri tíð, þó svo að ég þekki ekki þá sögu til neinnar hlítar, hefðu íslensk stjórnvöld getað unnið með öðrum hætti að réttindum landsins hvað varðar gróðurhúsalofttegundirnar.

Í umsögn Samtaka atvinnulífsins er til dæmis getið um ákveðna galla við innleiðingu tilskipunarinnar, meðal annars þann að áhrif hennar gætu orðið þau að hún geri ferðalög dýrari og auki kostnað við að flytja vörur til og frá landinu. Í máli þeirra kom fram að æskilegt hefði verið að reynt hefði verið að berjast fyrir því að tekið yrði tillit til þeirra hagsmuna sem um ræðir við úrvinnslu þessa máls. Það er örugglega satt og rétt og aldrei of oft ítrekað að það er gríðarlega mikilvægt að stjórnvöld haldi vöku sinni þegar kemur að því að halda uppi varðstöðu fyrir hagsmuni landsins á erlendum vettvangi. Til dæmis hefði örugglega mátt reka harðar eftir því að mæta neikvæðum áhrifum tilskipunarinnar að þessu leyti, til dæmis með því að sækja um undanþágur fyrir innanlandsflugið vegna þessarar tilskipunar, einfaldlega vegna þess að þar er um að ræða umhverfisvænni valkost en aðrar þjóðir nýta, til dæmis varðandi járnbrautir og fleira þvíumlíkt.

Þetta vildi ég segja um kerfið sjálft. Í öllum meginatriðum eru menn sammála um þetta og atvinnulífið, eins og hér er sagt, leggur gríðarlega áherslu á að þetta gangi eftir. Eins og málið er reifað hér og lagt til þá tekur þetta fyrst og fremst til beinna aðgerða gagnvart flugrekstrinum. Annar iðnaður í landinu hefur rýmri tíma til að laga sig að þessu. Þó liggur það þannig fyrir að starfandi fyrirtæki í ákveðnum greinum öðlast ákveðin réttindi með því frumvarpi sem hér er lagt til að verði að lögum.

Það eru hins vegar nokkur atriði sem ég vil nefna hér sem lúta að venjubundnum athugasemdum sem oft og iðulega koma fram við frumvörp sem koma frá ríkisstjórn á hverjum tíma, ef þannig má orða það. Það eru þættir sem lúta að því hvernig þau eru unnin af stjórnsýslunni upp í hendur þingsins. Meðal annars hef ég oftar en einu sinni og oftar en tvisvar gert athugasemdir við það að við samningu og framlagningu lagafrumvarpa frá ríkisstjórn sé ekki farið að þeim lögum og reglum sem þau taka til. Oft hefur verið nefnd sú ágæta handbók frá árinu 2007, sem Alþingi, forsætisráðuneytið og dómsmálaráðuneytið sömdu, þar sem regluverkið er byggt upp með þeim hætti að upplýsingar, ágreiningur, sem lúta að því lagafrumvarpi sem til umfjöllunar er séu leidd fram á vinnslustigi þess og síðan komi málið fullbúið í hendur nefndar.

Í þessu tilfelli eru nokkur atriði sem hefðu verið betur rannsökuð ef þeirri reglusetningu hefði verið fylgt sem í handbókinni er að finna, meðal annars þættir sem snerta athugasemdir sem við höfum fengið frá Umhverfisstofnun sem tengjast áhyggjum ríkisstofnunar af kostnaði við að hafa eftirlit með þessu kerfi. Þetta kom einnig fram, ef ég man rétt, hjá Isavia, flugumferðarstjórn eða einhverju því batteríi sem þar er að finna. Þessa þætti á að minni hyggju að vera hægt að vinna á þann veg að vísa í þann grunn sem fylgir frumvarpinu til þingsins. Það er með öðrum orðum eðlilegt og sjálfsagt, og regluverkið miðar við það, að þessum spurningum sé svarað í greinargerð stjórnvaldsins sem það leggur inn með frumvarpinu sem ósk til Alþingis um að fullnusta það og gera að lögum. Á þessu er misbrestur og hann er að finna í þessu máli. Ég vona að menn læri af því. Ég tel í það minnsta ástæðu til að ítreka þetta sjónarmið, hvar og hvenær sem þeim athugasemdum verður við komið. Ég hvet alla sem að slíkum verkum koma til að gera bragarbót á og fara að vanda sig meira við þá vinnu sem lögð er upp í hendur Alþingis og því er ætlað að vinna úr.

Ekki síst verður þetta manni að umtalsefni í því fári mála sem nú liggur fyrir á síðustu dögum þingsins, sem ætlast er til að við ljúkum. Þá er enn meiri ástæða til að ítreka að vandað sé til þeirrar vinnu. Við höfum sára reynslu af því að hafa kastað til höndum við þá lagasetningu sem við höfum afgreitt á undanförnum árum. Af sögunni skulum við læra.

Ég fagna því mjög hversu mikil samstaða náðist í nefndinni og tel að ástæðuna fyrir þeirri miklu samstöðu sé að finna í þeim gríðarlega samhljómi sem nefndarmenn fundu í trú sinni á að hinn frjálsi markaður mundi leiða þetta mál til farsællar niðurstöðu og úrvinnslu.