139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[16:18]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég geri engar athugasemdir við það að Bretland, Holland og Þýskaland hafi tekið þessar ákvarðanir. Ég játa að ég þekki ekki forsendurnar fyrir því en ég hygg að ástæða þess að aðrar aðstæður eru uppi þar en hér á landi séu fyrst og fremst stærð landanna, stærð hagkerfanna og að það þyki ekki og mér finnst það ósköp sannfærandi rök að segja að það séu ekki forsendur fyrir Íslendinga að reka svona kerfi sjálfstætt, einfaldlega vegna smæðar landsins.

Ég verð líka að segja að ég sé í þessu kerfi, þ.e. að tengja okkur við Evrópusambandið með þessum hætti, ákveðna möguleika eins og ég nefndi áðan. Til dæmis ef við horfum á það að vel rekin íslensk fyrirtæki í arðbærri starfsemi geti bætt við sig losunarkvótum með því að kaupa af aðilum annars staðar á Evrópusvæðinu. Ég sé í því mikla kosti en ég þykist vita að það sé ekki fullkomin eining um það á vettvangi Alþingis að það sé æskilegt, einfaldlega vegna afstöðu manna til orkuvinnslu, orkunýtingar og uppbyggingu stóriðju o.s.frv. Frá mínum bæjardyrum séð geta falist í því möguleikar sem mundu hugsanlega ekki vera fyrir hendi ef við værum ein og sér og ekki inni í þessu kerfi.

Varðandi hins vegar það hvort við hefðum fyrir einhverjum árum átt að fara aðrar leiðir, leita eftir framlengingu Kyoto-kvótans sem við höfðum á grundvelli íslenska ákvæðisins o.s.frv, þá var ég mjög hugsi yfir því á sínum tíma. Ég álít hins vegar að við séum eiginlega komin það langt í ferlinu að réttara sé að klára það með þessum hætti frekar en að velta fyrir okkur hvaða aðra möguleika við hefðum átt að (Forseti hringir.) velja fyrir þrem, fjórum, fimm árum.