139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[16:21]
Horfa

Frsm. minni hluta umhvn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir svarið. Það er afar einkennilegt, eins og ég sagði áðan, að Vinstri grænir séu komnir í ríkisstjórn og markaðsmál umhverfisins séu orðin rétthærri í þeirra huga en umhverfið sjálft þar sem þeir eru aðilar að þessu frumvarpi og leggja til að andrúmsloftið sjálft sem auðlind verði selt. En svona gerast kaupin á eyrinni.

Bent hefur verið á og ég bendi á það að kerfið sem verið er að leggja til að taka hér upp er spegilmynd íslenska sjávarútvegskerfisins sem Samfylkingin og Vinstri grænir vilja tortíma nú með tveimur lagafrumvörpum, því að hér er verið að færa ókeypis kvóta til þeirra aðila sem starfa á markaði bæði í fluginu og í iðnaðinum. Þeir gagnrýnendur sem hafa verið hvað háværastir varðandi sjávarútvegskerfið hafa bent á að þarna sé um gjafakvóta að ræða og það sé óeðlilegt að verið sé að færa þetta í hendur einstakra aðila. Ég minni á að íslenska sjávarútvegskerfið er einungis á Íslandi og bara í fiskveiðilögsögu okkar og að sett voru sérstök ákvæði í fiskveiðistjórnarlögin að kvótann mætti ekki veðsetja í útlöndum þó að það mætti framselja hann hér heima. Hér erum við að fjalla um alheimsauðlind. Þetta kerfi býður upp á viðskipti með losunarheimildir hringinn í kringum jörðina. Það er verið að útvíkka þessar heimildir til þeirra aðila sem fá losunarheimildirnar upphaflega til að selja þær á alþjóðamarkaði. Það er alveg fyrirséð að þær heimildir eiga eftir að hækka mjög til framtíðar því að andrúmsloftið er takmörkuð auðlind.

Finnst þingmanninum ekki að þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar fari fullgeyst í það skref að kvótavæða loftið með þessum hætti þar sem þeir eru svarnir óvinir íslenska fiskveiðistjórnarkerfisins sem er þó bara hér innan lands en nú liggur allur (Forseti hringir.) heimurinn undir?