139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[16:33]
Horfa

Frsm. minni hluta umhvn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum ræðu hans. Það sem Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn eiga sameiginlegt er að þeir eru miklir atvinnumálaflokkar og skilja það samhengi að án atvinnu þrífst ekkert þjóðlíf. Ég veit að þingmaðurinn hefur beitt sér mjög í atvinnumálum og því langar mig að beina fyrirspurn til hans sem snýr að losunarheimildunum sem stóriðjunni verður úthlutað með frumvarpinu.

Í nefndaráliti mínu er gerð grein fyrir því hvernig úthlutunin hefur verið til stóriðjunnar hér á landi, í tveimur töflum sem þar birtast. Litið var svo á að íslenska ríkið færi með losunarheimildir og hefði yfirumsjón með því að úthluta þeim til stóriðjunnar eins og kemur fram. Nú hefur íslenska ríkið afsalað sér þessum losunarheimildum sem voru að verðgildi 15 milljarðar árið 2007, það mætti helminga þá upphæð nú miðað við gengið. Nú á að færa losunarheimildirnar ókeypis til stóriðjunnar og síðan taka markaðsöflin við.

Er þingmaðurinn ekki hræddur um að hér á landi geti átt sér stað stóriðjuleki þegar fram í sækir og í allri Evrópu þar sem þetta kerfi er í gildi? Þegar fram í sækir þarf þessi iðnaður að kaupa sér losunarheimildir á markaði og eins og í öllum kvótakerfum hækkar kvótinn mjög hratt, sérstaklega þar sem um takmarkaða auðlind er að ræða, andrúmsloftið. Er ekki hætta á því að þessir aðilar komi til með að staðsetja sig í ríkjum þar sem ekki þarf losunarkvóta? Þá er ég að tala um Venesúela, Kína og Bandaríkin og fleiri lönd því að Evrópusambandið (Forseti hringir.) er að loka sjálft sig inni með þessum ákvæðum.