139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

staðfesting samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2011.

680. mál
[17:28]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir svarið. Ég legg áherslu á að mikilvægt sé að utanríkismálanefnd og eftir atvikum sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd fylgist vel með þessu og veiti íslenskum stjórnvöldum góðan stuðning í baráttu þeirra fyrir hagsmunum okkar að þessu leyti.

Það er alveg ljóst að pólitískur þrýstingur er allnokkur af hálfu Evrópusambandsins í þessu máli og sérstaklega hjá ákveðnum aðilum innan þess og þess vegna þörf á að menn standi fast á sjónarmiðum og hagsmunum okkar. Um leið og ég þakka hv. þingmanni fyrir legg ég áherslu á að nefndin haldi áfram að fylgjast með málinu því að þarna er tvímælalaust um mjög áþreifanlegt hagsmunamál að ræða fyrir fjöldamarga aðila sem tengjast íslenskum sjávarútvegi og margar sjávarbyggðir.