139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2011.

739. mál
[17:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki í hv. utanríkismálanefnd og hef heldur ekkert voðalega mikið vit á sjávarútvegi en hér er talað um uppsjávarfiska og þeir eru ýmsir, sumir nýkomnir inn í lögsöguna og ég spyr hvort þeir falli sjálfvirkt undir samninginn. Ég held að ég sé að tala um makríl og einhvern lítinn fisk sem ég man ekki alveg nafnið á sem stendur, pínulítinn en í miklu magni, og ég spyr hv. þingmann, framsögumann málsins, Árna Þór Sigurðsson, hvort þessir uppsjávarfiskar sem ég nefndi, þessir nýju gestir, séu inni í þessu máli og eins þá hvort þetta stuðli að því að Ísland og Færeyjar standi sameinuð gagnvart Evrópusambandinu í baráttunni um makrílinn sem er að verða milliríkjamál.

Eins er ég dálítið uggandi yfir því að hér renna málin í gegn nánast umræðulaust en geta engu að síður verið mjög stór mál. Núna er síðasti dagur þingsins samkvæmt starfsáætlun og maður hálfskammast sín fyrir að taka til máls því að þá líta sumir á það sem málþóf. Fer hv. utanríkismálanefnd mjög nákvæmlega ofan í þessa samninga og það sem hún er að gera?