139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

skeldýrarækt.

201. mál
[18:52]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Uppbygging skeldýraræktar á Íslandi er áhugaverð og sú reynsla sem hefur fengist síðustu ár er örugglega orðin marktæk. Náðst hefur ágætisárangur og ljóst er að víða hér við land er tækifæri til að byggja upp atvinnurekstur sem þennan. Í því geta falist heilmikil sóknarfæri fyrir ákveðin svæði, sérstaklega á landsbyggðinni.

Það er rétt sem komið hefur fram hjá þeim þingmönnum sem hafa flutt ræður á undan mér um þetta mál að það hefur ekki verið mikil trú á þessari atvinnugrein. Hún hefur ekki náð að fanga athygli fjármagnshafa eða þeirra sem ráða ferð fjármagns. Hafa ákveðin fyrirtæki þegar lent í vandræðum út af því, fyrirtæki sem kannski að öðru leyti gátu átt bjarta framtíð, fyrirtæki þar sem einstaklingar voru búnir að leggja mikið á sig fyrir lítið kaup, eigendur, en fengu svo ekki áheyrn og aðila til að taka þátt í þessu með sér og það hafa gerst slys sem ég kalla í því sambandi þar sem ekki var nógu mikið fjármagn til staðar til að koma mönnum yfir ákveðinn hjalla. Þetta vekur upp þá hugsun að þarna séu ekkert ósvipaðar aðstæður og við erum að heyra úr loðdýraræktinni sem í dag skilar mikilli arðsemi hjá þeim sem hana stunda, loksins. Er það fagnaðarefni að við skulum vera að ná þeim árangri þar sem raun ber vitni og búin eru að blómstra, en það eru helst erlendir aðilar sem horfa til fjárfestinga hér á landi í loðdýrarækt. Auðvitað er ágætt að fá erlenda fjárfestingu inn í landið en það er á sama tíma bagalegt að íslenskar fjármálastofnanir og fjármagnseigendur skuli ekki hafa opin augu fyrir tækifærum á þessum vettvangi eins og öðrum. Hvort hér er um að ræða einhverjar afleiðingar af hruninu og menn séu hræddir má vera en þarna gæti kannski ríkisvaldið haft ákveðið frumkvæði til að ýta undir þessa atvinnustarfsemi.

Við erum að tala hér um atvinnutækifæri bæði í skelrækt og ekki síður í loðdýraræktinni sem geta eflt atvinnustarfsemi úti um land og það sem hefur kannski helst skort á þeim vettvangi er aukin fjölbreytni bæði í landbúnaði og sjávarútvegi og í öðrum atvinnugreinum til að svara þeim samdrætti í mannaflaþörf sem aukin hagræðing og tækninýjungar hafa leitt af sér bæði í hinum hefðbundna landbúnaði og ekki síður sjávarútvegi.

Þeir sem hafa starfað á þessum vettvangi hafa kallað eftir lagaumgjörð, regluverki um starfsemi sína. Það hefur verið svolítið óljóst hvar þessi mál liggja og því hefur verið ákall hjá þeim sem hafa verið að reyna að byggja þetta upp um að fá einhvern ramma utan um starfsemina. Það er auðvitað vel, við þurfum að ramma þetta inn en á sama tíma þurfum við að taka ríkara tillit en gert er í þessu frumvarpi til að einfalda hlutina. Þarna eru klárlega mikil tækifæri, það höfum við heyrt á þeim aðilum í þessari atvinnugrein sem hafa rætt við okkur fulltrúa í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þingsins. Ljóst er að ræktunarskilyrði á hefðbundnum ræktunarsvæðum í Evrópu hafa verið að breytast mikið með hlýnun sjávar og það er orðið erfiðara uppdráttar með ræktun á þeim svæðum þar sem þessi atvinnustarfsemi hefur verið öflug. Á sama tíma virðast aðstæður hér vera að batna þannig að tækifærin eru klárlega til staðar. Það er ekki verið að vinna nýja markaði, markaðirnir eru til staðar og þeir eru ekki langt frá okkur. Við erum með dagleg flug með ferskan fisk inn á þessa markaði þannig að flutningurinn er ekki vandamál. Það eru miklir markaðir í nágrannalöndum okkar í Evrópu og afurðaverðið er mjög hátt. Vegna þeirra takmarkana sem eru að verða á hefðbundnum ræktunarsvæðum í Evrópu er verðið að fara upp, afurðaverðið er að hækka, og þetta gefur okkur tækifæri sem við eigum að líta til og reyna að nýta.

Það sem helst veldur mér áhyggjum í þessu frumvarpi, virðulegi forseti, eru þær hindranir sem eru innbyggðar í það og ég vil segja að ég held að við horfum oft ekki réttum augum á það hvað við þurfum að reyna til að greiða atvinnustarfsemi okkar leið. Ég er ekki að tala fyrir því að við höfum ekki varann á gagnvart umhverfi okkar og náttúruvernd eftir því sem við á þegar við hugum að reglugerð utan um atvinnulífið en við verðum líka að taka tillit til atvinnulífsins. Við höfum heyrt vaxandi kvartanir frá bæði hinum mismunandi aðilum í atvinnulífinu og frá ASÍ og ég vil minna á samþykkt á þingi ASÍ, að ég held í fyrra, þar sem var sérstaklega áréttað mikilvægi þess að fara að einfalda allt ferlið í kringum uppbyggingu t.d. á orkufrekum iðnaði á Íslandi. Við værum að glata samkeppnishæfi okkar gagnvart öðrum löndum þar sem við værum ekki með nægilega lipurt ferli til að afgreiða umsóknir og fara með þær í gegnum það matsferli sem þarf að fara í gegnum. Það er mikilvægt að við horfum til þess. En það læðist að manni sá grunur þegar maður rýnir gagnrýnið í þetta frumvarp að það sé innbyggt í okkar kerfi, ef við getum orðað það svo, eða okkar embætti sem fjallar um þetta og er að undirbúa lagafrumvörp sem þetta að regluverkið taki ekki mið af lipurleika heldur taki meira mið af því að allir þurfi að koma að hlutunum, allir þurfi að hafa um þetta að segja og allir gera kröfur um það, allar hinar mismunandi stofnanir gera kröfu um að eiga hlut að máli

Hvernig er hægt að einfalda þetta, virðulegi forseti. Það er bara mál sem þarf að leysa úr en maður hefði séð fyrir sér möguleika á því að það væri einhver ein stofnun sem yrði leitað til og hún mundi í raun samræma þessa vinnu meðal annarra stofnana. Mig langar, með leyfi forseta, að vitna í frumvarpið varðandi þetta en t.d. áður en tilraunaleyfi er veitt skal Matvælastofnun afla umsagna hjá Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun, Landhelgisgæslu Íslands, Orkustofnun, Siglingastofnun, Umhverfisstofnun og síðan viðkomandi sveitarstjórn. Allar þessar stofnanir þurfa að gera sínar úttektir, þær þurfa sinn tíma og ef það gerist þannig að þetta fer ekki á sama tíma til allra þessara stofnana er tíminn orðinn ansi langur sem krefst undirbúnings og þá eru menn auðvitað að tapa tekjum. Ég veit um fyrirtæki núna sem hefur verið að vinna með ákveðinni stofnun varðandi leyfisveitingu á tiltölulega einfaldri framleiðslu og það er búið að taka sex mánuði að reyna að ná þessu í gegn og á meðan er fyrirtækið alltaf að tapa tekjum.

Tilraunaleyfið er bara gefið í tvö ár. Við getum séð hvað það þýðir. Það virkar ekki hvetjandi á það að fara út í fjárfestingu eða leggja á sig mikla vinnu ef menn hafa í raun ekki lengri sýn en í tvö ár. Það má reyndar framlengja það um eitt ár í senn þannig að það gildi allt að fimm ár en það hefði auðvitað þurft að vera þannig að það væri búið svo um hnútana að tilraunaleyfið tæki til a.m.k. fimm ára. Eðli þessarar framleiðslu er þannig að það tekur svolítinn tíma að koma henni af stað og afurðir fara ekki að koma strax daginn eftir. Þetta þarf að rækta upp og þetta tekur allt sinn tíma. Á meðan eru ekki miklar tekjur þannig að á þessu tveggja ára tímabili verður hlutfall tekna mjög lítið í þessari framleiðslu. Þarna hefði ég viljað sjá gengið þannig frá hnútunum í byrjun að menn hefðu lengri tíma.

Við útgáfu tilraunaleyfis sem gildir þá ekki nema til tveggja ára í senn getur Matvælastofnun krafist þess að leyfishafi setji tryggingu fyrir kostnaði við að fjarlægja mannvirki, línur og annan búnað að lokinni starfsemi. Þarna er enn verið að gera íþyngjandi kröfur til þeirra sem fara út í þennan iðnað fyrir aðeins tveggja ára leyfi í byrjun. Það er alls enginn hvati fólginn í þessum reglum, þær eru miklu frekar íþyngjandi fyrir þá sem vilja fara að starfa í þessari grein. Ef við tökum þetta og leggjum saman við þá litlu trú sem fjármagnshafar hafa haft á þessari grein, þeir hafa ekki viljað leggja henni til fjármagn og þetta byggist kannski að mestu leyti upp á eigin fé þeirra sem í þetta fara og jafnvel fyrst og fremst mikilli vinnu þeirra fyrir litlar tekjur í langan tíma, getur þetta verið mjög íþyngjandi.

Síðan segir einnig í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Matvælastofnun er heimilt að veita tilraunaleyfishafa forgang að ræktunarleyfi á viðkomandi svæði að gildistíma loknum.“

Þarna er aftur sköpuð óvissa. Matvælastofnun er heimilt að veita tilraunaleyfishafa forgang að ræktunarleyfi. (Gripið fram í.) Hún þarf ekki að gera það. Með öðrum orðum, sá sem hefur verið að byggja þetta upp, starfa þarna í tvö til fimm ár á tilraunaleyfum er ekki endilega með það á hreinu að hann hafi forgang að þessu ræktunarleyfi. Ég held að við hefðum átt að skoða breytingar á þessu. Það væri eðlilegt að tilraunaleyfishafinn hefði þennan forgang og það væri ekki háð einhverri ákvörðun Matvælastofnunar. Auðvitað þarf að fylgja því eftir að hann hafi fylgt öllum settum skilyrðum í sínum rekstri og að staðið sé sómasamlega að málum. Matvælastofnun þarf að hafa og hefur heimildir til þess að stöðva reksturinn eða grípa þar inn í ef slíkt væri til staðar, einhverjir þættir sem þættu ámælisverðir í rekstrinum. Þetta er það sem ég set fyrirvara við í þessu frumvarpi auk 16. gr. frumvarpsins sem fjallar um framsal og er mjög stutt og laggóð en þar segir, með leyfi forseta:

„Framsal, leiga og veðsetning á tilraunaleyfi og ræktunarleyfi til skeldýraræktar samkvæmt lögum þessum er óheimil.“

Þarna er enn aftur verið að setja girðingar fyrir þá sem vilja hugsanlega fara af stað í svona rekstur, þ.e. einhverjir eru búnir að fara í gegnum allt að fimm ára tilraunatímabil, komnir með framleiðsluleyfi og eru kannski loksins farnir að sjá afrakstur af erfiði sínu til einhverra ára, eru loksins farnir að hafa tekjur, og setjum svo upp það einfalda dæmi, virðulegi forseti, að viðkomandi veikist og geti ekki stundað þessa atvinnu lengur. Þá má hann ekki selja fyrirtækið sitt, hann má ekki selja þessa framleiðslueiningu sem hann er með. Til hvers þá að fara, hvar er hvatinn fyrir einstaklinginn eða fólkið til að fara þessa leið? Af því að hér situr hv. formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar hefði ég viljað hvetja hana til þess að við skoðuðum þetta mál alveg sérstaklega. Eins og ég sagði fyrr í ræðu minni, og það vitum við sem höfum fengið kynningu á þessu, þá er mikið einstaklingsframtak í þessari grein, þetta er fólk sem byggir þetta upp í sveita síns andlitis. Það er engin sanngirni í því að fólk sé búið að byggja upp rekstur og sé kannski loksins farið að sjá einhverja afkomu og árangur af starfi sínu, síðan breytast aðstæður hjá fólki, það veikist eða eitthvað annað kemur upp á sem er ófyrirséð og þá stendur fólk upp í raun snautt. Það verður að hætta starfseminni og hefur þá væntanlega að auki íþyngjandi skyldur til að fjarlægja öll mannvirki. Það vantar eitthvað inn í þetta, virðulegi forseti. Ég er viss um að hugsunin í sjálfu sér á bak við grein sem þessa er ekki gagnvart slíkum atriðum. Þarna held ég að við séum bundin í eitthvað sem er skylt allt öðrum málum, þ.e. sjávarútvegsmálum [Kliður í þingsal.] og því umdeilda (Forseti hringir.) ákvæði sem þar er inni.

(Forseti (ÁI): Forseti biður um hljóð í hliðarsal svo ræðumaður geti haldið áfram máli sínu.)

Ég er alveg viss um að hugsunin að baki er ekki gagnvart slíku. Þetta liggur frekar í fiskveiðistjórnarfrumvarpinu, í því umdeilda ákvæði sem framsalið var þar, þó að það sé óumdeilt að þegar ríkisstjórn Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Framsóknarflokks kom á framsalinu árið 1990 var það gæfuspor fyrir sjávarútveginn þó að menn vilji ekki kannast við þann króga í dag. En það sem hefur valdið deilum var þegar menn voru að selja sig út úr þeirri grein með stórhagnaði án þess að ákveðnar skattgreiðslur kæmu til ríkisins eða hluti hans kæmi til ríkisins í formi skattgreiðslna og það voru ákveðin mistök sem voru gerð. Við ættum kannski að læra af þeirri reynslu varðandi þetta ákvæði í þessu lagafrumvarpi og hafa þar inni einhvers konar ákvæði um skiptingu þess söluverðmætis sem getur myndast og er þá falið í auðlindinni sem er auðlind þjóðarinnar.

Virðulegi forseti. Hér er klárlega um mjög áhugaverða atvinnugrein að ræða sem á að geta haft góða möguleika til framtíðar. Eins og ég sagði áðan eru að verða miklar breytingar á ræktunarskilyrðum á hefðbundnum ræktunarsvæðum sem hafa sinnt Evrópumarkaði. Á sama tíma eru skilyrðin að batna hér og tækifærin eru því klárlega til staðar og við eigum að ýta undir það. Við eigum að reyna að gera allt sem við getum til að byggja upp þessa atvinnugrein en við verðum að láta af þeirri hugsun sem kemur svo greinilega fram í þeim hafta- eða þröskuldsákvæðum sem eru í frumvarpi sem þessu. Við eigum að horfa miklu opnari augum til framtíðar.

Þrátt fyrir þessa fyrirvara mína, virðulegi forseti, við frumvarpið, mun ég styðja málið. Þó að margir sem ég hef rætt við og þekkja til á þessum vettvangi hafi athugasemdir við einmitt þá þætti sem ég hef farið yfir er það vilji greinarinnar að málið nái í gegn. Þeir telja að hagsmunum sínum sé betur fyrir komið í regluverki sem jafnvel hefur einhverja ágalla í byrjun og þarna eru ákvæði um endurskoðun innan skamms tíma. Ég er viss um að það verður breiður vilji til þess á Alþingi ef í ljós koma einhverjir augljósir gallar áður en að þeim tímamörkum kemur og að við munum sameinast í því og leggjast á eitt um að reyna að greiða leið þessarar atvinnugreinar sem á góða möguleika í framtíðinni.