139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

828. mál
[19:22]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að taka undir mikilvægi þess að þetta frumvarp verði að lögum eins hratt og mögulegt er. Í raun og veru hefði þetta kannski þurft að hafa gengið heldur hraðar fyrir sig. Mikilvægt er auðvitað að tryggja að þeir sem verða fyrir tjóni af völdum náttúruhamfara og þeir sem verða fyrir tjóni af völdum einhvers sem þeir ekki ráða við, eins og til að mynda þeir sem urðu fyrir díoxínmenguninni í Skutulsfirði, fái eðlilegar bætur til að geta skorið niður bústofn sinn eða undirbúið að fá nýjan bústofn, á sama hátt og verið hefur til að mynda varðandi riðubætur og annað í þeim dúr.

Með þeim lögum sem hér eru til umfjöllunar á því að tryggja að Bjargráðasjóður geti gengið í það sem gera þarf. Mig langar því að nefna það sem ég hef gagnrýnt hér á þinginu, að ríkisstjórnin hafi ekki gripið nægilega skjótt við og sent Bjargráðasjóð af stað til að fara inn á gossvæðið, meta þar tjón. Ég hef gagnrýnt að ríkisstjórnin hafi ekki beðið Bjargráðasjóð um að sinna því verkefni. Mér skilst nú að það sé í góðum farvegi en ég vona að þegar við klárum þetta mál verði það hvatning til ríkisstjórnarinnar að drífa sig að klára það líka því við lærðum það í Eyjafjallagosinu í fyrra að mikilvægasti stuðningurinn fyrir þá sem fyrir tjóninu verða er að þeir finni samstöðu þjóðarinnar, sem ekki hefur skort á, og að stjórnvöld standi þétt við bakið á þeim og lofi strax að gera það sem gera þarf og eðlilegt sé og taki síðan í beinu framhaldi þær stjórnvaldsákvarðanir sem þarf og tryggja fjármuni til verkefna.

Það er þá gert í þessu frumvarpi og því fagna ég og hvet þingheim til að styðja það og koma því sem hraðast til framkvæmda.