139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

fullgilding Árósasamnings um aðgang að upplýsingum o.fl.

678. mál
[19:29]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þá þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir og hefur nú verið rædd í utanríkismálanefnd milli 1. og 2. umr. Ég hef ekki komið að því starfi en ég vildi hins vegar lýsa því að hv. umhverfisnefnd Alþingis hefur verið með til umfjöllunar frumvörp til breytinga á lögum sem fylgja í kjölfar fullgildingar Árósasamningsins. Þau frumvörp gera ráð fyrir þeim efnislegu breytingum sem lagðar eru til í tengslum við fullgildingu Árósasamningsins. Þau eru reyndar ekki komin á dagskrá en búast má við því að síðar á þessu ári, trúlega í september, komi þau til umræðu í þinginu.

Það sem ég vildi taka fram á þessu stigi málsins, þegar við ræðum fullgildingu alþjóðasamningsins sem um er að ræða, er að frumvörpin sem fylgja og hæstv. umhverfisráðherra hefur lagt fram og umhverfisnefnd fjallað um, gera ráð fyrir að gengið sé býsna langt í lagabreytingum í tengslum við fullgildingu samningsins. Það er með öðrum orðum gert ráð fyrir að gengið sé mun lengra en nauðsynlegt er miðað við ákvæði Árósasamningsins.

Aðildarríkjunum er að sönnu heimilt að ganga lengra en Árósasamningurinn sjálfur gerir ráð fyrir en það er forvitnilegt fyrir hv. þingmenn að vita að frumvarpið sem er eftir meðferð í umhverfisnefnd á leiðinni aftur inn í þingið, gengur miklu lengra en nauðsynlegt er og gert hefur verið í löndunum í kringum okkur. Fyrst og fremst er um að ræða mismun sem snertir hinn almenna málskotsrétt, þ.e. rétt hvers og eins til málskots í málum sem varða umhverfismál samkvæmt tilteknum skilgreiningum raunar, án tillits til þess hvort viðkomandi hafi það sem kallað er á máli lögfræðinnar lögvarða hagsmuni. Actio popularis er þetta kallað á latínu og er mjög sjaldgæft í íslensku réttarfari, ég hygg að það sé einvörðungu fyrir hendi í dag varðandi möguleika til að kæra kosningar. Tillaga ríkisstjórnarmeirihlutans í hv. umhverfisnefnd gengur út á að samþykkja þá tillögu umhverfisráðherra að innleiða actio popularis, almennan málskotsrétt, óháð lögvörðum hagsmunum á viðamiklum sviðum umhverfismála.

Ég vildi geta um þetta hér þannig að menn átti sig aðeins á í hvaða samhengi við ræðum þetta. Ég vil jafnframt geta þess að við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umhverfisnefnd stóðum ekki að samþykktinni sem þarna um ræðir og munum tala gegn henni í þinginu. Við teljum að ekki sé óskynsamlegt að fara leið sem er líkari þeirri og aðildarríki Árósasamningsins sem eru líkust okkur að réttarfari og réttarkerfi hafa farið. Við sjáum ekki hvaða nauðsyn rekur til þess að ganga jafnlangt og hér um ræðir. Rétt er að taka þetta fram við þessa umræðu en ég ætla ekki að fara lengra í efnislegu umræðu um málið, við munum taka hana seinna. En það er ágætt að hv. þingmenn átti sig á því hvaða ágreiningsmál eru í vændum sem tengjast þeirri innleiðingu Árósasamningsins sem mælt er fyrir um í þessari þingsályktunartillögu.