139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2011--2014.

486. mál
[19:35]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti utanríkismálanefndar um tillögu til þingsályktunar um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2011–2014.

Það er mér sérstök ánægja að fá tækifæri til að mæla fyrir þessu nefndaráliti og breytingartillögum sem utanríkismálanefnd flytur við þingsályktunartillöguna og er að finna á þskj. 1698, nefndarálitið er á þskj. 1671.

Segja má að orðið hafi kaflaskipti hvað varðar umgjörð þróunarsamvinnu þegar lög nr. 121/2008, um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, voru samþykkt á Alþingi. Þau lög kveða m.a. á um að stjórnvöld leggi fram heildstæða áætlun um þróunarsamvinnu til fjögurra ára og leggi fyrir Alþingi. Tillagan sem hér um ræðir er fyrsta áætlunin á þessu sviði og markar því ákveðin tímamót. Hún er kaflaskipt og fjallar um skyldur Íslands í þróunarstarfi, þau gildi og áherslur sem liggja til grundvallar þróunarstarfi Íslands og framlög og framkvæmd eftir áherslusviðum, málaflokkum, samstarfsríkjum og stofnunum. Þá er í áætluninni greint frá áformuðum framlögum til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu sem hlutfalli af vergum þjóðartekjum og hvernig þau skiptast á grundvelli stefnumiða Íslands í þróunarsamvinnu til lengri og skemmri tíma litið.

Eins og fram kemur í fyrirliggjandi nefndaráliti fagnar utanríkismálanefnd tillögunni. Þróunarsamvinnuáætlunin er sett fram á greinargóðan hátt og var hún unnin í nánu samstarfi við frjáls félagasamtök, stofnanir og fagaðila. Það er rétt að undirstrika hve jákvæð ummæli um vinnubrögð og samráð við gerð áætlunarinnar hafa komið fram í umsögnum sem borist hafa nefndinni og í máli gesta sem komu á fund nefndarinnar. Ég hygg að á vettvangi utanríkismálanefndar hafi verið almenn ánægja með það hvernig þingsályktunartillagan var unnin, fram sett og kynnt í nefndinni þannig að ég held að ég geti fullyrt að þar hafi allir talað einum rómi.

Nefndin tekur heils hugar undir markmið með alþjóðlegri þróunarsamvinnu, eins og tilgreint er í tillögunni, um að Ísland leggi sitt lóð á vogarskálarnar fyrir bættum lífskjörum í fátækustu hlutum heimsins. Barátta gegn fátækt, félagslegu ranglæti, misskiptingu lífsgæða og hungri í heiminum eru forgangsmál í öllu þróunarstarfi.

Nefndin leggur jafnframt þunga áherslu á mannréttindasjónarmið og jafnréttismál í þróunarsamvinnu Íslands. Leggja ber áherslu á að íslensk stjórnvöld beiti sér á virkan hátt fyrir þessum málum í öllu þróunarsamstarfi, hvort sem um er að ræða tvíhliða eða marghliða þróunarverkefni eða samstarf á vettvangi alþjóðlegra stofnana um þróunarmál.

Nefndin lýsir ánægju sinni með þá nýbreytni að lagt sé til að sérstakur fjárlagaliður verði eftirleiðis helgaður samstarfi við frjáls félagasamtök. Má nefna að umsagnaraðilar og gestir hafa fagnað þeirri breytingu sérstaklega.

Þá fagnar nefndin áframhaldandi áherslu í áætluninni á þau svið þróunarmála þar sem Íslendingar hafa yfir sérþekkingu að búa, svo sem á sviði sjávarútvegs, fiskveiða, orkumála og byggðaþróunar. Á þeim sviðum hefur Ísland margt fram að færa og hefur raunar þegar náð miklum árangri í þróunarsamvinnulöndum okkar. Þær áherslur koma skýrt fram í verkefnum í samstarfsríkjum svo og í starfi deilda Háskóla Sameinuðu þjóðanna hér á landi.

Nefndin gerði tillögu að mikilvægri breytingu á áætluninni hvað varðar framlög Íslands til þróunarsamvinnu. Í stað þess að tala um breytingu á áætluninni væri e.t.v. nær að tala um styrkingu á henni. Ísland hefur lengi stefnt að því markmiði Sameinuðu þjóðanna að iðnríki skuli veita 0,7% af vergum þjóðartekjum til þróunarsamvinnu. Þar sem stefnuyfirlýsingar stjórnvalda og Alþingis um að ná því markmiði hafa ekki gengið eftir telur nefndin mikilvægt að varða leiðina að markmiðinu betur og gera það um leið raunhæfara, betur en gert er í þingsályktunartillögunni sjálfri. Nefndin leggur því til jafnari hækkun framlaga til ársins 2014 en kveðið er á um í tillögunni, þ.e. úr 0,21% árið 2012 og upp í 0,28% af vergum þjóðartekjum árið 2014. Árið 2017 verði svo sett nýtt viðmið en þá skuli 0,5% af vergum þjóðartekjum renna til þróunarmála. Það er rétt að taka það fram að í tillögunni sjálfri er ekki gert ráð fyrir milliviðmiði en nefndin taldi eftir umræðu og eftir umsagnir gesta að skerpa þyrfti og varða leiðina betur að lokamarkmiðinu og leggur því til að þetta nýja viðmið verði sett. Að lokum leggur nefndin til að markmiðið um 0,7% af vergum þjóðartekjum verði fært fram um tvö ár, eða fram til ársins 2019 í stað ársins 2021.

Að sjálfsgöðu fór fram allnokkur umræða um það á vettvangi nefndarinnar hvort þessi markmið væru raunhæf og hvort líklegt væri að þau mundu nást. Ýmsir vildu halda sig við það sem lagt var upp með í tillögunni, aðrir vildu ganga lengra og taka stærri og hraðari skref, en hér hygg ég að hafi orðið ágæt niðurstaða og málamiðlun milli ólíkra sjónarmiða hvað þetta varðar og að flestir geti við það unað. Að minnsta kosti skrifa allir nefndarmenn í utanríkismálanefnd undir álitið þó að tveir hv. þingmenn, Bjarni Benediktsson og Ólöf Nordal, skrifi undir álitið með fyrirvara, sem ég geri ráð fyrir þau geri þá grein fyrir sérstaklega í þessari umræðu.

Frú forseti. Á tímum mikils niðurskurðar í ríkisfjármálum hafa þjóðirnar sem Ísland ber sig saman við ekki skorið niður framlög til þróunaraðstoðar. Þar má nefna að Norðurlöndin og Írar, sem lent hafa í miklum efnahagsþrengingum líkt og Íslendingar, halda framlögum sínum jöfnum á meðan Bretar hafa ákveðið að auka framlög sín til þróunarmála sem hlutfall af vergum þjóðartekjum þrátt fyrir að bresk stjórnvöld standi í niðurskurði á flestum sviðum ríkisútgjalda. Þau grundvallarsjónarmið liggja þar að baki að það séu ríkir hagsmunir þróaðra ríkja að draga úr fátækt og misskiptingu auðs í heiminum, berjast gegn sjúkdómum og faröldrum sem víða eru landlægir í þróunarríkjum og auka menntunarstig með sérstakri áherslu á konur og börn. Framlög til þróunaraðstoðar og samvinnu er því um leið framlag til friðar og jöfnuðar um allan heim og meiri velsældar. Það leiðir væntanlega einnig til aukins kaupmáttar í þróunarlöndum og mun væntanlega vera ávinningur fyrir þróuð ríki. Þessi viðhorf eiga Íslendingar hiklaust að styðja í verki og það gerum við að mínu mati mjög vel með fyrstu heildstæðu þróunarsamvinnuáætlun Íslands sem liggur fyrir hér.

Ég þakka samnefndarmönnum mínum í utanríkismálanefnd fyrir góða og ánægjulega samvinnu að þessu máli og þakka sérstaklega fyrir þann góða samhljóm sem verið hefur í umræðum, málflutningi og vinnu á vettvangi nefndarinnar.

Utanríkismálanefnd leggur til að tillagan verði samþykkt með breytingum sem ég hef þegar gert grein fyrir í öllum meginatriðum og er að finna á sérstöku þingskjali.

Undir nefndarálit þetta rita Árni Þór Sigurðsson, Valgerður Bjarnadóttir, Bjarni Benediktsson, með fyrirvara, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Helgi Hjörvar, Ólöf Nordal, með fyrirvara, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Björgvin G. Sigurðsson og Birgitta Jónsdóttir.